Lífið

Bryndís hjólar fyrir Stígamót um helgina: „Björguðu lífi mínu“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Bryndís Ásmundsdóttir söng- og leikkona fer á spinninghjól í fyrsta skipti um helgina og hjólar þrefaldan tíma á góðgerðarviðburði.
Bryndís Ásmundsdóttir söng- og leikkona fer á spinninghjól í fyrsta skipti um helgina og hjólar þrefaldan tíma á góðgerðarviðburði.
Á laugardaginn fer fram góðgerðarviðburðurinn Stærsti spinningtími ársins þar sem safnað verður fyrir Stígamót. Bryndís Ásmundsdóttir söng- og leikkona er ein þeirra sem ætlar að hjóla þrjá spinningtíma í röð. Hún safnar nú áheitum fyrir þetta málefni sem skiptir hana persónulega miklu máli.

„Þetta er svo gott málefni og starfsemi Stígamóta er ólýsanleg og góð og ég hef sjálf góða reynslu af þeim. Svo fannst mér þetta svo skemmtileg hugmynd,“ segir Bryndís í samtali við Vísi. Sjálf leitaði hún fyrst til samtakana fyrir tveimur árum síðan.

Leitar reglulega til Stígamóta

„Ég leitaði til þeirra og þau, ásamt fleirum auðvitað, björguðu lífi mínu. Það er alveg á hreinu. Ég fer reglulega til þeirra til að viðhalda batanum.“

Á síðasta ári mætti Bryndís á spinningviðburðinn og söng fyrir þá sem voru að púla á hjólunum í salnum. Í ár tekur hún þetta skrefinu lengra og ætlar að hjóla alla þrjá tímana ásamt því að syngja í míkrófón með einhverjum vel völdum lögum.

„Í fyrra mætti ég bara í fullum skrúða upp á svið og söng fyrir alla sveittu spinningrassana. Núna verður þetta áskorun fyrir mig.“

Aldrei áður prófað spinning

Hver spinningtími er 45 mínútur og 15 mínútna pása verður á milli tíma. Sex kennarar sjá um að halda uppi stuðinu en stemningin á síðasta ári var ótrúlega góð.

„Ég hef örugglega ekki hreyft á mér rassgatið í rúmt ár,“ segir Bryndís kát og viðurkennir að hún hafi aldrei á ævinni farið í spinningtíma. „Ég er svona allt eða ekkert týpa.“

Góðgerðarspinningtíminn fer fram í Fylkisheimilinu laugardaginn 7. október. Þar verður búið að koma öllum spinninghjólum World Class fyrir sem eru 350 talsins en Gatorade og World Class standa fyrir viðburðinum. Húsið opnar kl. 9:00 og hefst fyrsti spinningtíminn af þremur stundvíslega kl. 10:00. Hægt að kaupa sig inn í einn, tvo eða alla þrjá tímana.

„Hver sem er getur mætt og fólk gerir þetta bara á sínum forsendum og á sínum hraða. Ég hvet alla til að mæta, þetta verður bara stuð,“ segir Bryndís.

Alltaf skortur á aur

Þeir sem vilja heita á Bryndísi geta lagt frjáls framlög inn á reikning 0537-26-407696, kennitala 451115-1540 og sett Bryndís í tilvísun. Ásamt Bryndísi eru þau Anna Lára Orlowska, Nökkvi Fjalar, Egill Ploder og Andrea Sigurðardóttir að safna áheitum í tengslum við þennan viðburð.

Allir þeir sem taka þátt á laugardaginn borga 2.000 krónur fyrir hvern tíma og rennur allur ágóðinn til Stígamóta. Einnig er fólk hvatt til þess að leggja inn frjáls framlög á söfnunarreikninginn.

„Starfsemin er æðisleg og ég veit bara að þau vilja gjarnan geta gert meira, eins og til dæmis fyrir landsbyggðina. Starfsmenn Stígamóta fara út á land nokkrum sinnum í mánuði til að hjálpa brotaþolum. Við vitum það bara að það er alltaf skortur á aur.“

Miðasalan fer fram hér.


Tengdar fréttir

Stærsti spinningtími ársins fer fram um helgina

Risastóri spinningtími World Class og Bleiku slaufunnar fer fram á sunnudaginn en um er að ræða risastóran spinningtíma sem þar sem öllum hjólum líkamsræktarstöðvarinnar World Class verður komið fyrir í Fylkisheimilinu en þau eru 350 talsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×