Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Njarðvík 87-79 | Meistararnir mörðu ljónin

Anton Ingi Leifsson skrifar
Brynjar Þór Björnsson og félagar náðu að landa sigri.
Brynjar Þór Björnsson og félagar náðu að landa sigri. vísir/ernir
Íslandsmeistarar KR byrja titilvörnina á sigri gegn Njarðvík í DHL-höllinni í Frostaskjóli í kvöld, 87-79. KR leiddi í hálfleik 53-43, en afar mikið var skorað í kvöld.

Fyrri hálfleikurinn var einkennilegur. KR leiddi lungan úr fyrri hálfleik með miklum mun; virtust miklu orkumeiri, tóku hvert varnar- og frákastið á eftir öðru og hittu úr þristunum sínum.

Njarðvík var þó aldrei langt undan. Framan af fyrri hálfleik steig KR bara aftur á bensíngjöfina þegar þeir nálguðust, en þegar líða fór á annan leikhluta gaf KR aðeins eftir.

Gestirnir úr Reykjanesbæ gengu á lagð og Maciej Baginski náði að minnka muninn í tíu stig fyrir hálfleik, 53-43, en KR hafði mest leitt með átján stiga mun í fyrri hálfleik.

Njarðvík byrjaði af krafti í síðari hálfleik og minnkaði muninn jafn og þétt. Logi Gunnarsson jafnaði svo metin í 63-63 með þriggja stiga körfu rétt eftir miðbik þriðja leikhluta og Terrell Vinson kom Njarðvík yfir í fyrsta skipti í leiknum undir blálok þriðja leikhluta, 68-67.

Fjórði leikhlutinn var gífurlega spennandi og mikill hasar. Margfaldir Íslandsmeistarar KR reyndust sterkari í öllum hasaranum undir lokin og stóðu uppi sem sigurvegarar í bráðskemmtilegum leik. Lokatölur 87-79.

Jalen Jenkins átti góðan leik fyrir KR, en hann skoraði 27 stig og tók tíu fráköst. Björn Kristjánsson átti einnig afar góðan leik gegn sínu gömlu félögum í Njarðvík, en hann skoraði 26 stig.

Terrell Vinson var magnaður hjá Njarðvík, en hanns koraði 32 stig og tók tólf fráköst. Logi Gunnarsson setti niður átján stig, þar af fjóra mikilvæga þrista. Aðrir skoruðu minnna.

Afhverju vann KR?

Liðið var sterkara á lokakaflanum. Leikmenn KR þekkja svona spennustig eins og var í kvöld og kunna vel við sig undir slíkri pressu. Pavel steig upp undir lokin og dró KR-vagninn í land, en hann átti góðan leik í kvöld og virkar í góðu formi.

KR spilaði frábærlega fyrri hluta fyrri hálfleiks og náði þar upp góðu forskoti sem liðið nánast bjó við allan leikinn. Góður kafli gestanna kom þeim aftur inn í leikinn, en eins og áður segir - ólseigir Íslandsmeistararnir voru með taugarnar rétt stilltar undir lokin.

Þessir stóðu upp úr

Terrell Vinson átti frábæran dag fyrir Njarðvík, en hann skoraði alls 32 stig. Hann var síógnandi, afar sterkur undir körfunni í bæði vörn og sókn og hirti tólf fráköst. Í KR-liðinu var Jalen Jenkins með 31 framlagspunkt; 27 stig og tíu fráköst. Pavel átti sem fyrr fínan leik, skoraði 18 stig, tók fimm fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Hvað gekk illa?

Njarðvíkingum gekk afar illa að byrja leikinn. Þeir byrjuðu hann skelfilega og KR skoraði fyrstu tíu stig leiksins. Sóknarleikurinn var stirður, varnarleikurinn slakur og KR skoraði 53 stig í fyrri hálfleik. Allt annað var að sjá til þeirra grænklæddu í síðari hálfleik og þær sýndu þær klærnar.

Tölfræðin sem vakti athygli

KR var afar duglegt að refsa gestunum kláruðu þeir ekki sínar sóknir almennilega. KR skoraði alls 28 stig eftir að þeir grænklæddu köstuðu boltanum frá sér á meðan gestirnir skoruðu einungis fjögur eftir að KR tapaði boltanum. Þar munar um minna.

KR-Njarðvík 87-79 (29-17, 24-26, 14-25, 20-11)

KR: Jalen Jenkins 27/10 fráköst/3 varin skot, Pavel Ermolinskij 18/5 fráköst/6 stoðsendingar, Björn Kristjánsson 16/6 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 11/4 fráköst, Darri Hilmarsson 9/4 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 6/5 fráköst, Benedikt Lárusson 0, Karvel Ágúst Schram 0, Orri Hilmarsson 0, Ólafur Þorri Sigurjónsson 0, Andrés Ísak Hlynsson 0, Arnór Hermannsson 0.



Njarðvík: Terrell Vinson 32/12 fráköst, Logi Gunnarsson 18, Ragnar Helgi Friðriksson 7/6 fráköst/6 stoðsendingar, Maciek Stanislav Baginski 7, Oddur Rúnar Kristjánsson 5, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 4/8 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 3, Jón Arnór Sverrisson 3, Snjólfur Marel Stefánsson 0, Gabríel Sindri Möller 0, Brynjar Þór Guðnason 0, Elvar Ingi Róbertsson 0.

Skúli: Þetta var hrikalega gaman

„Við vorum komnir sautján stigum yfir og misstum það niður. Grunnurinn að sigrinum liggur í fyrri hálfleiknum, en ég held að hvernig menn náðu sér saman eftir að hafa misst niður 17 stiga forskot lýsir karakternum í liðinu,” sagði Skúli Ingibergur Þórarinsson, aðstoðarþjálfari KR, sem var við stjórnvölinn hjá KR í dag í fjarveru Finns Freys.

„Það eru ekki mörg lið sem þola að missa niður svona forskot. Vissulega var grunnurinn byggður með góðri forystu þarna í fyrri hálfleik og góðri byrjun. Við náðum þeim í bólinu.”

Eitthvað fór úrskeiðis hjá KR í upphafi síðari hálfleiks, en Skúli gat ekki beint á einhvern einn hlut sem að honum fannst hafa farið úrskeiðis.

„Ég stama bara. Við komum flatir út í seinni hálfleikinn og það er ekki í fyrsta sinn sem við gerum það á öllum þeim tíma sem ég hef verið hérna.”

„Hvað það er veit ég ekki. Kannski voru menn eitthvað slakir eftir að hafa náð góðri forystu, en það er ekki hægt gegn Njarðvík. Við gerðum vel í að taka okkur saman í andlitinu og klára þetta.”

„Sigur er sigur. Það er bara þannig,” sagði Skúli. Hann stýrði liðinu í fjarveru Finns sem var í leikbanni. Hann neitar því ekki að það hafi verið gaman:

„Ég veit ekkert hvar Finnur var. Þetta var drullugaman. Ég hef ekki stýrt leik í rúmt ár og þetta var hrikalega gaman. Þetta kitlar ansi margar taugar. Finnur má alveg koma til baka. Mér líður vel á stólnum við hliðina á honum,” sagði Skúli léttur.



Daníel Gylfi: Ósáttur með tæknivilluna á mig

„Við erum með frábæra leikmenn í þessu liði og góða liðsheild. Það er mjög súrt hvernig við byrjum þennan leik og það er hornsteinninn í þessum sigri KR,” sagði Daníel Gylfi Guðmundsson, þjálfari Njarðvík, í samtali við Vísi. 

„Við þurfum að bregðast við og þurftum að gera hluti sem við lögðum ekki upp með. Við þurfum að gera miklu betur og spila í 40 mínútur, en ekki spila í einhverjar 15-20.”

„Ég er ekki alveg nægilega sáttur. Ég þarf skoða líka að skoða mig; til dæmis hvernig við spilum vörn gegn vagg og veltu því það var ekki að virka vel á þá í kvöld. Við þurfum að skoða þetta og gera betur.”

Karakterinn var mikill hjá Njarðvík sem hefði með smá heppni getað stolið sigrinum í kvöld, en KR reyndist sterkari á endasprettinum.

„Við héldum þeim í 14 stigum í þriðja leikhluta. Þeir skoruðu 20-11 í fjórða leikhlutanum og þar lá þetta,” en Daníel ræddi við dómarana eftir leik. Var eitthvað eitt atvik sem hann var meira ósáttur með en annað?

„Ég veit að þeir geri alltaf sitt besta og standa sig jafnan vel, sérstaklega þessir reynsumiklir dómarar, en svo er eitt og eitt leikkerfi í leiknum sem sést ekki og getur haft áhrif,” sagði Daníel og hélt áfram:

„Bandaríkjamaðurinn var ósáttur að fá ekki villu og eftir því sem ég kemst næst þá var þetta villa, en dómararnir geta ekki séð allt. Ég var líka ósáttur með tæknivilluna á mig þar sem ég var að segja við minn leikmann að drulla sér aftur.”

„Þetta snýst um að safna stigum og það er alltaf erfitt að koma hingað og ná í stig. Strákarnir unnu vel bróðurpartinn úr seinni hálfleik, en við þurfum að klikka aðeins betur saman,” sagði hundfúll Daníel.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Fréttablaðsins og Vísis, var í DHL-höllinni í kvöld og tók myndirnar hér að neðan.

vísir/eyþór
vísir/anton
vísir/anton
Daníel var ekki nógu sáttur með leik sinna manna.vísir/ernir
Skúli stýrði KR í kvöld.vísir/ernir

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira