Skoðun

Lífi, sem er bjargað, verður að gefast tækifæri til að lifa!

Stefán John Stefánsson skrifar
Af hverju gengur ekkert upp hjá mér?

Hvers vegna get ég ekki sagt orðin sem ég er að reyna segja?

Af hverju þarf ég að leggja mig í 5 tíma eftir að hafa farið í barnaafmæli?

Þetta eru spurningar sem fólk með ákominn heilaskaða spyr sjálft sig kannski oftar en aðrir.

Talið er að hundruð Íslendinga hljóti heilaskaða á hverju ári og er það ein algengasta orsök áunninnar fötlunar hjá ungu fólki og ein meginorsök ótímabærs dauða. Þrátt fyrir þessa staðreynd er engin heildstæð stefna eða langtíma meðferðarúrræði til staðar.

Helstu orsakir heilaskaða hjá ungu fólki eru bílslys og líkamsárásir en einnig geta höfuðhögg í íþróttum, föll eða vinnuslys valdið heilaskaða. Rannsóknir á umfangi höfuðáverka hérlendis eru af skornum skammti en ljóst er að mikil vangreining á sér stað í heilbrigðiskerfinu sem orsakast fyrst og fremst af vanþekkingu á einkennum heilaskaða. Því eru margir einstaklingar í samfélaginu sem eru ekki að fá meðferð við hæfi. Þeir sem ekki fá viðeigandi meðferð, t.d. vegna framheilaskaða, eru í aukinni hættu varðandi geðræn vandamál, áhættuhegðun og að komast í kast við lögin. Margir glíma því oft við afleiðingar heilaskaða án þess að vita af heilaskaðanum og hvers vegna hlutir ganga ekki upp hjá þeim.

Heilaskaði getur haft víðtæk og truflandi áhrif meðal annars á einbeitingu, minni, mál, persónuleika, tilfinningar, hegðun, hæfni til samskipta, innsæi og framtakssemi. Önnur möguleg einkenni geta verið flog, höfuðverkur, svimi, truflun á skyni og á samhæfingu vöðva. Geðslag einstaklingsins, persónuleiki hans og hans hugræna geta getur orðið fyrir miklum áhrifum. Högg á höfuð geta haft óafturkræfar afleiðingar, heilaskaði getur gjörbreytt lífi einstaklingsins og haft neikvæð áhrif á fjölskyldulíf og framtíðaráform.

Hugarfar er félag fólks með ákominn heilaskaða, aðstandenda þess og áhugafólks um málefnið. Hugarfar hefur í samráði við Fagráð um heilaskaða staðið að vitundarvakningu meðal almennings og boðið upp á jafningjahópa, aðstandendahópa, fræðslu- og reynslusögukvöld. Fræðslufundir sem Hugarfar stendur fyrir miðast við að auka skilning fólks á heilanum og áhrifum heilaskaða á hann. Þeir eru ætlaðir einstaklingum með ákominn heilaskaða og aðstandendum þeirra, sem og öðrum sem vilja öðlast meiri skilning á því sem einstaklingar með heilaskaða þurfa að glíma við.

 

Höfundur er verkefnisstjóri Hugarfars.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×