Erlent

Opnir fyrir því að banna byssuaukahlut

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins.
Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar bandaríska þingsins. vísir/EPA
Repúblikanar í báðum deildum bandaríska þingsins vilja skoða hvort rétt væri að banna byssuaukahlut sem lætur sjálfvirk skotvopn skjóta hraðar. Slíkan aukahlut notaði Stephen Paddock sem myrti og særði á sjötta hundrað í Las Vegas síðustu helgi.

Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagði í viðtali í gær að það væri nauðsynlegt að skoða málið. „Ég vissi ekki einu sinni að þetta væri til fyrr en um síðustu helgi. Við erum að átta okkur á þessum búnaði,“ sagði Ryan.

John Cornyn, öldungadeildarþingmaður flokksins, kallaði eftir nefndarfundum um búnaðinn. „Mér finnst undarlegt að það sé ólöglegt að breyta hálfsjálfvirkum byssum í sjálfvirkar en að þessi búnaður sé ekki bannaður. Ég á fjölmargar byssur, ég nota þær á veiðum og í íþróttum og mér finnst það sjálfsögð réttindi mín sem Bandaríkjamanns. En ég skil ekki þennan búnað.“

Paddock festi búnaðinn á tólf riffla. Svo virðist sem árásin hafi verið skipulögð í þaula en í gær sagði lögreglustjóri Las Vegas að Paddock hafi líklega undirbúið flóttaleið frá vettvangi árásarinnar. Aðspurður hvort morðinginn hafi verið einn að verki svaraði lögreglustjórinn: „Maður verður að draga þá ályktun af sönnunargögnum í málinu að hann hafi fengið hjálp á einhverjum tímapunkti.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×