Innlent

Lægðagangur í kortunum eftir helgi

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Það gengur í austan hvassviðri syðst á landinu í dag og von er á lægðagangi eftir helgi.
Það gengur í austan hvassviðri syðst á landinu í dag og von er á lægðagangi eftir helgi. Foto: Vísir/Vilhelm
Samkvæmt hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands gengur í austan hvassviðri syðst á landinu í dag en 8-13 m/s annarsstaðar um landið sunnan- og vestanvert en breytileg átt, 3-8 m/s á Austurlandi og Austfjörðum. Rigning verður sunnanlands í dag en léttskýjað norðantil. Suðlægari vindur í nótt, 5-10 m/s en gengur í 10-18 við suður- og vesturströndina, hvassast verður á Snæfellsnesi.

Á morgun á að vera skýjað og einnig dálítil rigning með köflum, einkum sunnan- og vestanlands. Hiti verður á bilinu 4 til 9 stig að deginum. Útlit er fyrir lægðagang eftir helgi, en þó ekki djúpar lægðir og því verður ekki mjög hvass vindur. Rigning eða súld á köflum í flestum landshlutum en þurrt og jafnvel bjart þess á milli. Áfram fremur milt í veðri.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Austan 5-13 m/s, en 13-18 allra syðst á landinu. Víða rigning, en léttskýjað og þurrt norðanlands. Þykknar upp fyrir norðan með lítilsháttar vætu og heldur hægari vindur syðst seint í kvöld. Sunnan 5-13 á morgun, en 13-18 á Snæfellsnesi. Rigning með köflum en úrkomulítið á Norðausturlandi. Hiti 4 til 9 stig en við frostmark norðaustantil í nótt.

Á laugardag:

Sunnan 5-10 m/s, en 8-13 á vestantil. Súld eða dálítil rigning, en þurrt norðaustanlands. Hiti 6 til 12 stig.

Á sunnudag:

Sunnan 3-10 og lítilsháttar skúrir, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Austlægari og fer að rigna syðst á landinu um kvöldið. Hiti 5 til 10 stig.

Á mánudag:

Breytileg átt 5-13 og rigning um allt land. Hiti 3 til 8 stig. Hægviðri og þurrt að kalla á norðaustanverðu landinu undir kvöld.

Á þriðjudag:

Gengur í suðaustan 10-15 á Suður- og Vesturlandi og fer að rigna. Hægari vindur og bjart fyrir norðan og austan. Hiti 3 til 8 stig.

Á miðvikudag:

Austlæg átt og rigning með köflum sunnan- og austanlands, en yfirleitt þurrt í öðrum landshlutum. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag:

Útlit fyrir austlæga átt og rigningu á Suðausturlandi en þurrt að kalla suðvestantil og léttskýjað norðanlands. Hiti 1 til 7 stig.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×