Erlent

Fellibylurinn Nate stefnir á suðurströnd Bandaríkjanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Gervihnattamynd af Nafe yfir norðvestanverður Karíbahafi í gær.
Gervihnattamynd af Nafe yfir norðvestanverður Karíbahafi í gær. Vísir/AFP
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna við Mexíkóflóa vegna fellibyljarins Nate sem stefnir þangað á land. Fellibylurinn hafi þegar valdið dauða að minnsta kosti 23 manna í Mið-Ameríku.

Fellibyljamiðstöð Bandaríkjanna varar við lífshættulegum sjávarflóðum af völdum fellibyljarins frá Lúisíana í vestri til Albama í austri. Verið er að rýma hluta New Orleans-borgar, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Nate er nú talinn fyrsta stigs fellibylur. Þegar hann var enn flokkaður sem hitabeltisstormur olli hann mannskaða í Níkaragva, Kosta Ríka og Hondúras. Stormurinn fór fram hjá ströndum Júkatanskaga í Mexíkó í nótt.

Þrátt fyrir að Nate sé ekki eins öflugur og fellibyljirnir María og Irma getur hann enn valdið miklum usla með úrkomu, sjávarflóðum og hávaðaroki, ekki síst á láglendum svæðum eins og í Lúisíana.

„Stærsta ógnin er ekki endilega rigningin heldur sterkir vindar og sjávarflóð,“ segir Mitch Landrieu, borgarstjóri New Orleans.

Útgöngubanni var komið á í borginni í gærkvöldi og þúsund þjóðvarðliðar hafa verið ræstir út þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×