Erlent

Enn einn fellibylurinn gengur á land í Bandaríkjunum

Hæsti samfelldi vindhraði Nate var um 38 m/s þegar hann gekk á land við Biloxi í Mississippi í nótt.
Hæsti samfelldi vindhraði Nate var um 38 m/s þegar hann gekk á land við Biloxi í Mississippi í nótt. Vísir/AFP
Fellibylurinn Nate gekk á land í Lúisíana og Mississippi í Bandaríkjunum í nótt. Vindhraðinn í fyrsta stigs fellibylnum mældist þá 38 m/s og varað hefur verið við lífshættulegum sjávarflóðum. Spáð er að hratt dragi úr styrk fellibyljarins þegar hann færist inn á land.

Fyrst kom Nate að landi við ósa Mississippi-fljótsins kl. 20 að staðartíma í gærkvöldi og svo aftur nærri Biloxi í Mississippi-ríki kl. 1:30 í nótt að staðartíma. Þokast fellibylurinn norður á bóginn inn á land.

Flóð af völdum hans áttu þó að halda áfram fram á morgun, að sögn Washington Post. Gefnar hafa verið út viðvaranir og svæði hafa verið rýmd í Lúisíana, Mississippi, Alabama og Flórída. Borgarstjórinn í bænum Gulfport nærri Biloxi sagði breska ríkisútvarpinu BBC að svo virtist sem að sjávarflóðin væru minni en óttast hafði verið og að útlit væri fyrir að tjón yrði takmarkað af völdum fellibyljarins.

Tuttugu og fimm manns hafa farist af völdum Nate í Mið-Ameríku en þá var hann flokkaður sem hitabeltisstormur. Þar olli hann úrhellisrigningu, aurskriðum og flóðum sem lokuðu vegum, eyðilögðu brýr og skemmdu hús. Að minnsta kosti 400.000 manns eru enn sagðir án drykkjarvatns í Kosta Ríka þar sem átta manns fórust.

Þrettán fórust í Níkaragva, þrír í Hondrús og einn í El Salvador.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×