Erlent

Allar 3,5 milljónir íbúa Púertó Ríkó án rafmagns

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ekkert rafmafn er nú á eyjunni Púertó Ríkó af völdum fellibylsins Maríu sem þar náði landi í dag. Alls búa um 3,5 milljónir á eyjunni.

Abner Gómez, yfirmaður Almannavarna ríkisins segir að María hafi eyðilagt „allt sem hún fór yfir“.

Hvetur hann íbúa eyjunnar til þess að halda sig innandyra sé það mögulegt en búist er við að tjón af völdum Maríu verði gríðarlegt. Um 500 neyðarskýli hafa verið sett upp fyrir íbúa Púertó Ríkó.

Vindhraði Maríu er nú um 69 m/s og er hún fyrsti fjórða flokks fellibylurinn sem nær landi á eyjunni frá 1932.

María er áttundi kröftugasti fellibylurinn sem mælst hefur á Atlantshafinu, en Irma var í öðru sæti. 38 dóu í Karíbahafinu vegna Irmu og 36 í Bandaríkjunum.

Ríkisstjóri Púertó Ríkó, hefur þegar farið fram á það við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að lýst verði yfir neyðarástandi á eyjunni en Púertó Ríkó er í frjálsu sambandi við Bandaríkin og innan þeirra lögsögu.


Tengdar fréttir

Meira tjón fram undan vegna Mariu

Þök rifnuðu af húsum á Dóminíku og mikil flóð dundu á Guadeloupe í Karíbahafi í gær þegar fimmta stigs fellibylurinn Maria gekk yfir. Búist er við frekara tjóni í dag. Vindhraði Mariu jókst óvenjuhratt vegna hitastigs sjávar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×