Íslenski boltinn

Stjörnupar Þór/KA safnar fyrir fórnarlömb jarðskjálftanna í Mexíkó

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Mayor og Bianca Sierra fagna marki með liðsfélögum sínum í sumar.
Sandra Mayor og Bianca Sierra fagna marki með liðsfélögum sínum í sumar. Vísir/Eyþór
Sandra Mayor og Bianca Sierra hafa farið á kostum með liði Þór/KA í sumar en norðanstúlkur geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Grindavík á laugardaginn.

Sandra Mayor, sem er á sínu öðru tímabili á Akureyri, er markahæsti leikmaður deildarinnar með 17 mörk í 16 leikjum.  Flestir eru á því að þar fari besti leikamaður Pepsi-deildar kvenna.

Bianca Sierra kom til liðs við Þór/KA fyrir þetta tímabil og spilar risastórt hlutverk í vörn Þór/KA-liðsins. Hún er á góðri leið að verða Íslandsmeistari á sínu fyrsta tímabili með liðinu.

Sandra Mayor og Bianca Sierra eru par og þær hafa blómstrað innan sem utan vallar eftir að þær komu til Akureyrar.  Þetta var meðal annars til umfjöllunar í bandaríska blaðinu New York Times fyrr í sumar. 

Þær eru báðar frá Mexíkó og í mexíkóska landsliðinu og hugur þeirra er í heimalandinu þessa dagana eftir náttúruhamfarirnar í Mexíkó í fyrradag. Jarðskjálftarnir kostuðu yfir 230 manns lífið og eyðilögðu heimili fjölda fólks til viðbótar. Margir eiga því um sárt að binda í Mexíkó og þurfa á mikilli aðstoð að halda.

Þær Sandra Mayor og Bianca Sierra hafa nú sett af stað söfnun í gegnum youcaring.com og þar er markmið þeirra að safna 50 þúsund dollurum eða 5,4 milljónum íslenskra króna. Þetta kemur á Twitter síðu þeirra beggja. Það er hægt að taka þátt í söfnuninni með því að smella hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×