Erlent

Enn ein handtakan á Spáni

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Sextán manns létust í árásunum.
Sextán manns létust í árásunum. VÍSIR/AFP
Spænska lögreglan hefur handtekið marokkóskan mann í tengslum við rannsókn á hryðjuverkunum í Barselóna og Cambrils. Er hann grunaður um að hafa starfað með hópnum að baki árásunum að sögn innanríkisráðherra Spánar.

Rúmlega mánuður er frá því að hryðjuverkamenn myrtu 16 manns í tveimur árásum á Spáni. Í þeim árásum notuðust árásarmennirnir við bíla og hnífa. Karlmaðurinn sem var handtekinn í dag er sagður búa á Spáni og að lögreglumenn hafi haft hendur í hári hans í bænum Castellon í austurhluta landsins.

Íslamska ríkið lýsti ábyrgðinni á hendur sér en tengsl árásarmannanna, sem flestir eru frá Marokkó en hafa búið í Spáni undanfarin ár, og samtakanna hafa ekki verið sannreynd. Lögreglan hefur skotið sex menn úr hryðjuverkahópnum til bana og handtekið fjóra í umfangsmiklum aðgerðum á síðustu vikum.

Þá létust tveir í sprengingu í íbúðarhúsi í bænum Alcanar, suðvestur af Barselóna. Þeir eru einnig grunaðir um að hafa lagt á ráðin um frekari hryðjuverk í samfloti við hópinn. Stóð meðal annars til að sprengja upp kirkja La Sagrada Familia, eitt helsta kennileiti Barselóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×