Sport

FH-strákarnir eru að bæta sig hjá Eggerti Bogasyni | Mímir með met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mímir Sigurðsson.
Mímir Sigurðsson. Mynd/Heimasíða FH
Ungir kringlukastarar náði glæsilegum árangri á Coca cola móti FH í frjálsum í gær og eru þeir að taka miklum framförum þessi misserin. Frjálsíþróttasambandið segir frá þessu á heimasíðu sinni.

Mímir Sigurðsson setti nýtt Íslandsmet pilta 18 til 19 ára í kringlukasti þegar hann kastaði kringlunni 54,43 metra. Mímir bætti með þessu piltamet Guðna Vals Guðnasonar um tæpan einn og hálfan metra.

Mímir er enn á yngra ári í þessum flokki og má búast við enn betri árangri hjá honum á næsta ári.

Valdimar Hjalti Erlendsson (Valdimarssonar) bætti sig um tæpa fimm metra og kastaði hann kringlunni lengst 54,54 metra með 1,5 kg kringlu. Með þessu kasti er hann orðinn fjórði besti kringlukastarinn í flokki pilta 16 til 17 ára.

Valdimar er enn á yngra ári í þessum flokki og hann byrjaði ekki að kasta kringlu fyrr en á þessu ári. Faðir hans, Erlendur Valdimarsson, er næstbesti kringlukastari Íslendinga frá upphafi en hann kastaði kringlunni lengst 64,32 metra árið 1974.

Þjálfari beggja þessara efnilegu kringlukastara er kastþjálfari FH-inga, Eggert Bogason. Eggert Bogason á sjálfur fimmta besta árangur hjá íslenskum kringlukastara frá upphafi.

Íslandsmetið í kringlukasti karla á Vésteinn Hafsteinsson en hann kastaði lengst 67.64 metra árið 1989. Guðni Valur Guðnason er kominn upp í þriðja sæti á listanum á eftir þeim Vésteini og Erlendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×