Enski boltinn

Lögreglan á varðbergi þegar United og Liverpool heimsækja Moskvu í næstu viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Manchester United fær af sér "sjálfu“ með Alex Ferguson
Stuðningsmaður Manchester United fær af sér "sjálfu“ með Alex Ferguson Vísir/Getty
Margir stuðningsmenn ensku liðanna Liverpool og Manchester eru að undirbúa ferð til Rússlands í næstu viku en þá munu lið þeirra spila Meistaradeildarleiki í Moskvu.

Rússneska lögreglan hefur áhyggjur af komu ensku stuðningsmannanna og hefur látið það berast að lögreglan verði mjög sýnilega á götum Moskvuborgar þessa daga í næstu viku. BBC segir frá.

Rússneskar knattspyrnubullur réðust á stuðningsmenn enska landsliðsins í Marseille á EM í Frakklandi sumarið 2016. Það þarf að passa upp á að stuðningshópum félaganna lendi ekki saman.

Það er búist við því að um tvö þúsund stuðningsmenn þessara tveggja ensku liða ætli að leggja á sig þessa löngu ferð til Moskvu.  Liverpool mætir Spartak Mosvku á þriðjudaginn en CSKA Moskva tekur á móti Manchester United daginn eftir.

Forráðamenn Manchester United hafa ráðlagt sínum stuðningsmönnum að ganga ekki um borgina í búningi félagsins og aldrei að ganga einir um Moskvu.

Samkvæmt upplýsingum Liverpool til síns stuðningsfólks þá eru yfirvöld í Moskvu með varúðarráðstafanir í gangi og lögreglan verður á varðbergi meðal annars í kringum hótel enska stuðningsfólksins.

Liverpool og Manchester United eru að snúa aftur í Meistaradeildina eftir mislanga fjarveru. Liverpool gerði jafntefli við Sevilla í sínum fyrsta leik í Meistaradeildinni í þrjú ár 13. september síðastliðinn en Manchester United vann Basel á Old Trafford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×