Innlent

Íslendingurinn sem handtekinn var í íbúð við Hagamel laus úr haldi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi á Hagamel í gær.
Frá vettvangi á Hagamel í gær. vísir
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sleppt Íslendingi, sem handtekinn var í íbúð við Hagamel í Reykjavík í gærkvöldi, úr haldi. Maðurinn er ekki grunaður um aðild að andláti konu sem lést í gærkvöldi á slysadeild Landspítalans eftir að hafa orðið fyrir alvarlegri líkamsárás á heimili sínu í risíbúð við Hagamel.

Íslendingurinn og konan, sem var af erlendu bergi brotin, bjuggu bæði í risíbúðinni en annar maður, erlendur ríkisborgari er enn í haldi lögreglunnar og er krafist vikulangs gæsluvarðhalds yfir honum. Ekki liggur fyrir hvort að héraðsdómur hafi fallist á þá kröfu.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við Vísi að atburðarásin hafi skýrst það vel í dag að lögreglan telji ekki að Íslendingurinn tengist málinu. Aðspurður hvernig yfirheyrslur hafi gengið í dag segir hann þær hafa gengið mjög vel. Þá telji lögreglan sig hafa nokkuð skýra mynd af atburðarásinni.

Grímur vill aðspurður ekki svara því hvort að játning liggi fyrir í málinu og kveðst ekki vilja fara neitt út í það sem hefur komið fram við yfirheyrslur.


Tengdar fréttir

Krefjast vikulangs gæsluvarðhalds yfir manninum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer fram á vikulangt gæsluvarðhald yfir erlendum karlmanni sem grunaður er um að hafa orðið konu að bana á heimili hennar við Hagamel í Reykjavík í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×