Umfjöllun og viðtöl: Grótta 23 - 24 ÍBV | Allt á suðupunkti á nesinu

Benedikt Grétarsson skrifar
Róbert Aron Hostert skoraði 5 mörk fyrir Eyjamenn
Róbert Aron Hostert skoraði 5 mörk fyrir Eyjamenn vísir/anton brink
ÍBV sigraði baráttuglatt lið Gróttu þegar liðin mættust í þriðju umferð Olísdeildar karla í handknattleik í dag. ÍBV vann nauman sigur 23-24 og er því með fjögur stig í deildinni. Gróttumenn eru hins vegar án stiga.

Sigurbergur Sveinsson skoraði átta mörk fyrir ÍBV og Aron Rafn Eðvarðsson varði 14 skot. Bjarni Ófeigur Valdimarsson skoraði átta mörk fyrir Gróttu og Hreiðar Levý Guðmundsson varði 17 skot í markinu, þar af tvö víti.

Það varð fljótlega ljóst hvort liðið væri sterkara. Þrátt fyrir töluvert kæruleysi Eyjamanna, þá náðu þeir góðum tökum á leiknum í fyrri hálfleik. Leikmenn ÍBV voru að reyna alls kyns krúsidúllur, snúninga og flottheit en það er þó alltaf spurning um að ná afgerandi forystu áður en boðið er upp í ferð í sirkusinn. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 9-16 og maður hafði á tilfinningunni að ÍBV gæti verið a.m.k. 10 mörkum yfir.

Allt annað var að sjá til Gróttu í seinni hálfleik. Leikmenn börðust eins og ljón og Bjarni Ófeigur Valdimarsson fór á kostum í sókninni. Hægt og bítandi unnu Gróttumenn sig aftur inn í leikinn og jöfnuðu í 18-18 þegar rúmlega 10 mínútur voru til leiksloka.

Liðin skiptust á að skora allt til loka en Grótta fékk kjörið tækifæri til að taka eitt stig þegar um 15 sekúndur voru til leiksloka. Þá vann Þórir Jökull Finnbogason boltann í vörninni og brunaði einn upp völlinn. Þórir þrumaði hins vegar framhjá markinu í dauðafæri og Eyjamenn fögnuðu torsóttum sigri í skemmtilegum handboltaleik.

Af hverju vann ÍBV leikinn?

Eyjamenn unnu leikinn vegna þess forskots sem þeir náðu í fyrri hálfleik og vegna samblands af klaufaskap og óheppni Gróttumanna. Með fullri virðingu fyrir Gróttu, þá á sterkt lið eins og ÍBV ekki að missa niður sjö marka forystu og það er umhugsunarefni fyrir Arnar Pétursson hversu kærulausir menn virkuðu löngum stundum. Það er ekki alltaf nóg að vera með hæfileika, hugurinn þarf að fylgja með.

Hverjir stóðu upp úr?

Aron Rafn Eðvarðsson lék virkilega vel í fyrri hálfleik og varði þá helming þeirra skota (9 skot) sem rötuðu á markið. Sigurbergur sýndi flotta takta í sókninni og Theodór skilar alltaf mörkum. Hornamaðurinn knái mætti þó stilla miðið betur.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var gríðarlega sterkur í liði Gróttu og þar er mikið efni á ferð. Jóhann Kaldal Jóhannssson og Ásmundur Atlason eru sömuleiðis mjög lofandi leikmenn.

Hvað gekk illa?

Varnarleikurinn gekk illa hjá Gróttu í fyrri hálfleik og sömuleiðis illa hjá ÍBV í þeim síðari. Menn voru alltaf skrefinu á eftir og í kjölfarið fylgdu fjölmargar brottvísanir á bæði lið. Þá var ekki hægt að bóka mark þegar menn komust í kjörstöðu og má þar benda á að hinn gríðarlega örugga vítaskytta ÍBV, Theodór Sigurbjörnsson, klúðraði þremur vítum í leiknum.

Hvað gerist næst?

ÍBV er í kjörstöðu að láta kné fylgja kviði og sækja tvö stig í næsta leik en þá mætir þetta sterka lið nýliðum Víkings í Fossvoginum. Miðað við hvernig deildin fer af stað, ættu Eyjamenn að sigla skellihlæjandi með Herjólfi frá þeirri viðureign.

Gróttumanna bíður erfitt verkefni en Seltirningar leika gegn FH í Kaplakrika. Fyrir leik dagsins hefði ég persónulega ekki sett pening á Gróttu í þeim leik en eftir þessa frammistöðu, þá er aldrei að vita nema ég hendi þúsara á strákana hans Kára Garðarssonar.

Sigurbergur Sveinsson var markahæstur hjá ÍBV með 8 mörk.Vísir/Anton brink
Sigurbergur: Ógeðslega lélegt

„Við vorum komnir á það level að halda að þetta yrði bara þægilegur sigur að loknum fyrri hálfleik og að við þyrftum ekki að hafa fyrir hlutunum. Ég veit bara ekki hvað ég á að segja um þennan seinni hálfleik, þetta var bara mjög lélegt,“ sagði Sigurbergur Sveinsson leikmaður ÍBV.

Stórskyttan skoraði átta mörk í þessum sigurleik en var engu að síður langt frá því að vera ánægður.

„Fyrri hálfleikurinn var góður og við getum tekið það með okkur heim til Eyja. Við fáum á okkur átta brottvísanir í seinni hálfleik sem segir ýmislegt um varnarleikinn. Ég hef eiginlega engin orð um þetta, þetta var ógeðslega lélegt. Þessi seinni hálfleikur fer bara í ruslið hjá okkur.“

En er lið ÍBV á góðum stað í byrjun móts? Það hlýtur að vera pláss fyrir bætingu?

„Við eigum helling inni. Við sýnum það í fyrri hálfleik þegar við erum gjörsamlega með þá. Ef við hefðum svo klárað leikinn eins og menn, þá hefði þetta verið þægilegur sigur. En ég meina, það er eitthvað að bæta. Það er fínt að hafa eitthvað að bæta,“ sagði Sigurbergur frekar súr eftir sigurleikinn.

Kári Garðarsson þjálfari Gróttu.Vísir/Vilhelm
Kári: Fáum því miður ekki neitt

Það var frekar skrýtið að tala við menn eftir leik Gróttu og ÍBV en þar voru Eyjamenn frekar daufir eftir sigur en Gróttumenn þokkalega sáttir þrátt fyrir tap. Kári Garðarsson, þjálfari Gróttu var bara nokkuð brattur.

„Þeir stóðu sig hrikalega vel drengirnir og ég er mjög ánægður með þá. Þetta var mikill karakter og við töluðum um það í hálfleik að gera betur í seinni hálfleik og það gekk aldeilis eftir. Því miður færir þessi frammistaða okkur ekki neitt þegar upp er staðið.“

Kári vill ekki meina að hann hafi fundið upp hjólið í hálfleiksræðu sinni en Grótta snéri vonlítilli stöðu í hörkuleik.

„Það voru engar stórkostlegar taktískar breytingar. Við gerðum bara of mikið af feilum í fyrri hálfleik. Við hleyptum leiknum upp í hraða og læti og það er bara það sem ÍBV vill gera, að keyra á háu tempói. Við náum svo að skila betri sóknarleik í seinni hálfleik og Hreiðar ver nokkra stóra bolta,“ sagði Kári.

Þórir Jökull Finnbogason gat tryggt Gróttu eitt stig en misnotaði hraðupphlaup rétt fyrir leikslok. Kári fór ekkert í þann leik að finna sökudólga.

„Ég fer bara inn í klefa og hrósa þeim öllum. Það var sömuleiðis margt gott í Valsleiknum en svo vorum við slakir gegn ÍR. Það verður bara að taka klisjuna að við byggjum á þessu en það gerist ekkert af sjálfu sér í þessum bransa.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira