Erlent

McCain bregður fæti fyrir flokksbræður sína, aftur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
John McCain er öldungardeildmaður fyrir Arizona-ríki Bandaríkjanna.
John McCain er öldungardeildmaður fyrir Arizona-ríki Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Öldungardeildarþingmaðurinn John McCain segir að hann geti ekki stutt nýjustu tilraun samflokksmanna sinna í Repúblikanaflokknum til þess að ganga frá heilbrigðis- og sjúkratryggingakerfi Bandaríkjanna, sem gengur undir nafninu Obamacare.

McCain, sem glímir nú við krabbamein í heila, segist ekki geta greitt atkvæði með heilbrigðisfrumvarpi Repúblikana samvisku sinnar vegna. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, styður frumvarpið.

Demókratar í Öldungardeild Bandaríkjaþings eru alfarið á móti frumvarpinu og segir McCain að það sé rangt að reyna að koma frumvarpi til laga um jafn stórt mál og heilbrigðis- og sjúkratryggingakerfi Bandaríkjanna án þess að báðir flokkar komi að máli. Greiddi hann atkvæði gegn frumvarpi þess efnis í sumar.

Þetta er í annað sinn á örfáum mánuðum sem McCain fer gegn flokksforystu Repúblikanaflokksins þegar kemur að tilraunum flokksins til þess að afnema Obamacare.

Repúblikanar þurfa minnst 50 af 100 atkvæðum öldungardeildarinnar til þess að samþykkja frumvarpið. Flokkurinn ræður yfir 52 sætum en tveir þingmenn þeirra hafa nú þegar lýst yfir andstöðu við frumvarpið, McCain og Rand Paul.

Þá eru fimm þingmenn Repúblikana sagðir vera efins um frumvarpið og því útlit fyrir að enn og aftur mistakist Repúblikönum að afnema Obamacare.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×