Enski boltinn

Kominn úr frystikistunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óvænta hetjan Oumar Niasse fagnar sigurmarki sínu gegn Bournemouth. Senegalinn skoraði bæði mörk Everton í leiknum.
Óvænta hetjan Oumar Niasse fagnar sigurmarki sínu gegn Bournemouth. Senegalinn skoraði bæði mörk Everton í leiknum. vísir/getty
Eftir fjóra deildarleiki án sigurs og þrjá deildarleiki án marks án marks náði Everton í þrjú gríðarlega mikilvæg stig gegn Bournemouth á Goodison Park á laugardag.

Hetja Everton kom úr óvæntri átt, í raun úr frystikistunni. Oumar Niasse kom inn á sem varamaður fyrir Wayne Rooney í upphafi seinni hálfleiks og á 77. mínútu jafnaði hann metin í 1-1 eftir sendingu frá öðrum varamanni, Tom Davies. Fimm mínútum síðar skoraði Niasse sigurmark Everton með skalla af stuttu færi. Ótrúleg innkoma hjá Senegalanum og þrátt fyrir að hafa aðeins spilað tvo leiki er hann annar af tveimur markahæstu leikmönnum Everton á tímabilinu.

Það er kaldhæðni örlaganna að Niasse sé að bjarga andliti Ronalds Koeman sem vildi fyrir ekki svo löngu ekkert með hann hafa.

„Staðan er allt önnur eftir sigurinn. Það eru lykilaugnablik á tímabili og þetta er stór sigur sem gefur öllum byr undir báða vængi. Ég vil hrósa leikmönnunum, Niasse og Davies. Þeir gerðu vel eftir erfiðan tíma,“ sagði Koeman eftir leikinn. Hollendingurinn virkaði hálf skömmustulegur í viðtölum eftir leikinn og var ekki tilbúinn að kvitta undir að Niasse væri kominn til að vera í leikmannahópi Everton.

Bítlaborgarliðið keypti Niasse frá Lokomotiv Moskvu á 13,5 milljónir punda í byrjun síðasta árs. Senegalinn spilaði aðeins fimm leiki á fyrsta tímabilinu og staða hans þrengdist enn frekar þegar Koeman tók við.

Eftir að hafa spilað einn hálfleik á undirbúningstímabilinu tjáði Koeman Niasse að hann hefði ekki not fyrir hann. Niasse fékk ekki treyjunúmer, var skipað að æfa með varaliðinu og var ekki einu sinni aðgang að skáp í búningsklefa þess. Niasse fór á láni til Hull City um mitt síðasta tímabil og gerði ágæta hluti.

Sem kunnugt er byrjaði Everton þetta tímabil skelfilega og virtist fyrirmunað að skora. Koeman keypti fullt af leikmönnum í sumar en fyllti ekki skarðið sem Romelu Lukaku skildi eftir sig.

Koeman var orðinn það örvæntingarfullur að hann kyngdi stoltinu og hóaði í Niasse sem þakkaði traustið með tveimur mörkum í 3-0 sigri á Sunderland í deildabikarnum á miðvikudaginn.

Í stöðunni 0-1 í leiknum gegn Bournemouth veðjaði Koeman aftur á Niasse sem dró Everton-liðið að landi. Það skyldi aldrei vera að maðurinn sem var jaðarsettur og niðurlægður af Koeman bjargi starfi hans og keyri tímabilið hjá Everton í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×