Enski boltinn

Gylfi var næstum því dýrasti leikmaður Everton í bara nokkra daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Vísir/Getty
Everton gerði Gylfa Þór Sigurðsson að dýrasta leikmanninum í sögu félagsins þegar Everton borgaði Swansea City meira en 40 milljónir punda fyrir íslenska landsliðsmanninn í ágúst.

Forráðamenn Everton reyndu hinsvegar að bæta þetta met aðeins nokkrum dögum eftir að félagið gerði Gylfa að metleikmanni í sögu félagsins.

Spænska blaðið Marca slær því upp að Everton hafi boðið 66 milljón punda í spænska framherjann Diego Costa á lokadögum félagsskiptamarkaðsins.

Það varð þó ekkert úr þessum kaupum þar sem að Diego Costa vildi bara komast aftur til Atletico Madrid og gat ekki hugsað sér neitt annað. Hann vildi ekki fara til Everton og vildi ekki vera áfram í Englandi.

Diego Costa var búinn að stilla sig inn á endurfundi í Madrid og tilboð frá AC Milan eða öðrum félögum breytti heldur ekki skoðun hans.

Gylfi missti því ekki stimpilinn „dýrasti“ leikmaður Everton og heldur honum í það minnsta fram á nýtt ár en félagsskiptaglugginn opnar aftur í janúar. Everton vantar ennþá tilfinnanlega framherja fyrir Gylfa að finna í vítateignum.

Diego Costa er nú kominn til Atletico Madrid og mun ganga undir læknisskoðun hjá félaginu í dag. Hann kemur fyrst á láni út tímabilið en verður síðan væntanlega keyptur í sumar.

Gylfi Þór Sigurðsson fagnaði aftur á móti langþráðum sigri um helgina þegar Everton vann endurkomusigur á Bournemouth. Þetta var fyrsti sigur félagsins á tímabilinu þar sem Gylfi hefur spilað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×