Körfubolti

Cavaliers, Spurs, Heat og Thunder eru öll að reyna að fá Dwyane Wade

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dwyane Wade.
Dwyane Wade. Vísir/Getty
Chicago Bulls keypti upp lokaárið í samningi sínum við Dwyane Wade sem er nú laus allra mála hjá Bulls og getur samið við hvaða lið sem er í NBA-deildinni fyrir komandi tímabil.

Dwyane Wade átti að fá 23,8 milljónir dollara fyrir lokaárið, rúma 2,57 milljarða íslenskra króna, en gaf eftir um 8 milljónir dollara sem eru um 864 milljónir íslenskra króna.



Það er talið líklegast að Dwyane Wade verði aftur liðsfélagi LeBron James en núna hjá Cleveland Cavaliers. Cleveland er þó ekki eina liðið í kapphlaupinu.

San Antonio Spurs, Miami Heat og jafnvel Oklahoma City Thunder eru líka að reyna að lokka Wade til sín.

Adrian Wojnarowski‏ á ESPN er með frábær sambönd í NBA-deildinni og það fer því fátt framhjá honum. Hann hefur heimildir fyrir því að fyrrnefnd lið sé á höttunum á eftir undirskrift frá Dwyane Wade.



Dwyane Wade hefur þrisvar orðið NBA-meistari á ferlinum en hann er orðinn 35 ára gamall.

Wade var með 18,3 stig, 4,5 fráköst, 3,8 stoðsendingar og 1,4 stolna bolta að meðaltali í leik á síðasta tímabili með Chicago Bulls sem eru allt annað en slæmar tölur fyrir 35 ára gamlan leikmanna.

Wade kom inn í deildina 2003 og spilaði þrettán fyrstu árin sín með Miami Heat þar sem hann varð NBA-meistari þrisvar sinnum.

Hann yfirgaf Miami fyrir síðasta tímabil eftir að Heat buðu honum aðeins 4,3 milljóna samning og sögðu að hann yrði að sætta sig við það að koma inn af bekknum.

Dwyane Wade fór þá mörgum á óvörum til Chicago Bulls en hann er frá Chicago.

Flestir körfuboltaspekingar eru á því að Wade vilji komast til liðs sem getur barist um NBA-titilinn á komandi tímabili og það er hægt að segja um Cleveland Cavaliers, San Antonio Spurs og Oklahoma City Thunder.

Cleveland Cavaliers hefur komist í úrslitin þrjú tímabil í röð en liðið er þó nokkuð breytt eftir að það lét Kyrie Irving fara. Isaiah Thomas og Jae Crowder komu í staðinn fyrir Boston.

Hjá Spurs gæti Wade spilað með Kawhi Leonard, LaMarcus Aldridge, og Rudy Gay en hjá OKC yrðu liðsfélagar hans Russell Westbrook, Paul George og góður vinur hans Carmelo Anthony.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×