Innlent

Þrír Ísraelsmenn skotnir til bana

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi skotárásarinnar í morgun.
Frá vettvangi skotárásarinnar í morgun. vísir/epa
Þrír Ísraelsmenn voru skotnir til bana snemma í morgun fyrir framan inngang að umdeildri landnemabyggð á Vesturbakkanum samkvæmt upplýsingum frá ísraelsku lögreglunni.

Samkvæmt frétt BBC var byssumaðurinn þrjátíu og sjö ára gamall Palestínumaður frá þorpi í nágrenninu. Hann var einnig skotinn og lést af sárum sínum skömmu síðar.

Maðurinn var í hópi palestínskra verkamanna sem voru að bíða eftir að komast inn í landnemabyggðina þegar hann dró upp byssuna og hóf skothríð á öryggisverði við innganginn.

Engin samtök hafa lýst árásinni á hendur sér en herskáu hóparnir Hamas og Íslamskt Jíhad á Gazasvæðinu hafa báðir fagnað árásinni sem og öðrum sem gerðar hafa verið að undanförnu. Fjórir særðust alvarlega að auki í árásinni en auk skotvopns var árásarmaðurinn vopnaður hnífi.

Að minnsta kosti fimmtíu Ísraelar og fimm manns frá öðrum þjóðlöndum hafa látið lífið í svipuðum árásum frá því síðla árs 2015. Á sama tíma hafa 255 Palestínumenn verið drepnir, þegar þeir hafa ætlað að gera árás, að sögn Ísraela. Fleiri Palestínumenn hafa síðan fallið í átökum við ísraelska hermenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×