Lífið

Trénu stungið niður víða um heim

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigurður Sigurjónsson leikur eitt af aðalhlutverkunum í kvikmyndinni Undir trénu.
Sigurður Sigurjónsson leikur eitt af aðalhlutverkunum í kvikmyndinni Undir trénu.
Eftir að Undir trénu var frumsýnd í Norður-Ameríku á Toronto kvikmyndahátíðinni í byrjun september hefur myndin selst vel víða um heim.

Áður hafði kvikmyndin verið seld til Frakklands og Norðurlandanna auk þess sem hið virta dreifingarfyrirtæki Magnolia tryggði sér réttinn í Norður-Ameríku.

Nú hafa Grikkland, Ástralía, Nýja-Sjáland, Holland, Belgía, Lúxemburg, Kína, Eistland og Litháen bæst við. Viðræður standa enn yfir við fjölda landsvæða og ljóst má vera að fleiri sölusamningar munu bætast við á komandi vikum.

„Það er greinilegt að það eru ekki bara íslenskir áhorfendur sem flykkjast í bíó, því myndin vekur mikla athygli utan landsteinanna og algjörlega frábær viðbrögð sem við höfum verið að fá, sérstaklega í Norður-Ameríku. Hún virðist hitta mjög vel þar,” segir Hafsteinn Gunnar Sigurðsson leikstjóri sem er nýkominn frá Austin, Texas þar sem myndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni Fantastic Fest um helgina.

Framundan er ferðalag á tugi kvikmyndahátíða út um allan heim og hefur myndin verið tilnefnd til fjölda virtra verðlauna, t.a.m. í Zürich, Sviss, Hamptons, Bandaríkjunum og Valladolid á Spáni. Þessar hátíðir fara allar fram núna í október.

Undir trénu er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna og hafa um 30 þúsund manns séð hana í íslenskum kvikmyndahúsum síðan hún var frumsýnd í byrjun mánaðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×