Umfjöllun: Tékkland - Ísland 30-23 | Jákvæð teikn þrátt fyrir tap

Anton Ingi Leifsson skrifar
Arna Sif Pálsdóttir skoraði þrjú mörk í kvöld.
Arna Sif Pálsdóttir skoraði þrjú mörk í kvöld. vísir/ernir
Ísland tapaði sínum fyrsta leik í undankeppni fyrir EM kvenna í handbolta 2018, en liðið tapaði fyrir Tékklandi ytra í dag, 30-23. Staðan var 15-11 Tékkum í vil í hálfleik.

Liðið var án fimm lykilleikmanna og það var ljóst fyrir leikinn að ungir og óreyndari leikmenn myndu fá sénsinn. Karen Knútsdóttir, Rakel Dögg Bragadóttir, Sunna Jónsdóttir, Steinunn Björnsdóttir og Rut Jónsdóttir voru allar frá. Alvöru skörð þar.

Fyrri hálfleikurinn var ágætur hjá íslenska liðinu, allt þangað til undir lok hálfleiksins. Þá náðu heimastúlkur 5-1 kafla og leiddu því 15-11 í hálfleik.

Í síðari hálfleik varð þetta svo aldrei leikur, en Tékkarnir áttu í litlum sem engum vandræðum með íslenska liðið og sigruðu örugglega að lokum. Lokatölur 30-23.

Mörk Íslands (skot): Birna Berg Haraldsdóttir 7/3 (15/4), Þórey Rósa Stefánsdóttir 6 (6), Arna Sif Pálsdóttir 3 (4), Helena Rut Örvarsdóttir 3 (4), Lovísa Thompson 3 (7), Hildigunnur Einarsdóttir 2 (2), Ragnheiður Júlíusdóttir 1 (1), Steinunn Hansdóttir 0 (1), Unnur Ómarsdóttir 0 (1), Andrea Jacobsen 0 (2).

Varin skot: Guðrún Ósk Maríasdóttir 8 (25/2) 32%, Hafdís Lilja Renötudóttir 3 (14/1) 21%.

Afhverju vann Tékkland?

Undir lok fyrri hálfleiks náðu tékknesku stelpurnar 5-1 kafla og náðu upp fjögurra marka forskoti sem þær létu aldrei af hendi. Þær refsuðu Íslandi grimmilega fyrir mistök sín, en íslenska liðið gerði ekki mörg mistök. Þau voru hins vegar afar, afar dýr og náðu stelpurnar okkar ekki að brúa bilið þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir og fínasta leik.

Hvað gekk vel?

Það má margt jákvætt taka úr leik íslenska liðsins þrátt fyrir nokkuð stórt tap. Liðið var án margra lykilmanna og ungir óreyndir leikmenn stigu all hressilega upp. Sóknarleikurinn var ágætur og varnarleikurinn, þegar liðið komst í vörn, var virkilega öflugur.

Helena Rut spilaði afar vel í vinstri skyttunni og hin átján ára, Lovísa Thompson, stjórnaði spilinu. Arna Sif var afar öflug á línunni og lengi mætti telja. Fínasta frammistaða hjá “nýju” íslensku kvennalandsliði í handbolta, ef svo mætti kalla. Birna Berg var svo markahæst með sex mörk.

Hvað gekk illa?

Íslenska liðið var lengi að skila sér til baka eftir sóknir sínar. Trekk í trekk fékk liðið á sig mark úr hröðum upphlaupum eða seinni bylgju og það er eitthvað sem má ekki leyfa sér gegn eins sterku liði og Tékkarnir eru. Tékkarnir refsuðu grimmt í bakið á okkar stelpum og það er eitthvað sem verður að laga.

Liðið réð ekkert við Marketu Jerabkovu og Michaela Hrbkova sem skoruðu sextán mörk samtals.  Stelpurnar okkar hefðu þurft að ganga betur út í hana og með smá heppni hefði markvarslan verið meiri.

Hvað gerist næst?

Ísland mætir feyknasterku liði Dana strax á sunnudag í Höllinni og ljóst er að það verður afar erfitt verkefni, en Ísland tapaði meðal annars gegn félagsliðum í Danmörku í æfingarferð sinni í sumar. Tékkarnir mæta á sama tíma Slóveníu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira