Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Haukar 26-30 | Haukar unnu stórleikinn

Anton Ingi Leifsson skrifar
Egill Magnússon, stórskytta Stjörnunnar.
Egill Magnússon, stórskytta Stjörnunnar. vísir/eyþór
Haukar eru komnir með sex stig í Olís-deild karla eftir sigur á Stjörnunni í TM-höllinni í kvöld, 30-26. Haukar leiddu 14-11 í hálfleik og sigldu góðum tveimur stigum í hús.

Haukarnir byrjuðu betur og leiddu framan af fyrri hálfleik, en Stjarnan átti góðan kafla og Garðar B. Sigurjónsson jafnaði metin í 11-11. Þá fylgdu þrjú Haukamörk í röð og þeir leiddu 14-11 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Gestirnir úr Hafnarfirði byrjuðu síðari hálfeikinn af miklum krafti, en í kjölfarið kom góður kafli hjá Stjörnunni sem jafnaði metin í 18-18. Haukarnir stigu þá aftur á bensíngjöfina og unnu að lokum fjögurra marka sigur, 30-26.

Afhverju unnu Haukar?

Haukarnir leiddu frá níundu mínútu leiksins og einungis tvisvar var jafnt eftir það, 11-11 og 18-18. Þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir heimamanna í að saxa niður forskot Haukana trekk í trekk þá misstu þeir þá alltaf á endanum of langt fram úr sér.

Haukarnir spiluðu vel þegar mest á reyndi, en hefðu kannski átt að gera fyrr út um leikinn. Stjarnan má þó eiga það að þeir komu alltaf til baka, aftur og aftur, en það vantaði lokaskrefið að taka fram úr Haukunum.

Hvað gekk vel?

Sóknarleikur Hauka var mjög góur og Björgvin var vel á verði í markinu fyrir aftan frábæra vörn. Tjörvi Þorgeirsson er einn besti leikstjórnandi liðsins og hann stjórnaði spilinu eins og herforingi. Margir lögðu lóð sín á vogaskálirnar hjá Haukunum og alls skoruðu átta útileikmenn, en upp úr stóðu hraðaupphlaups-Halldór, Hákon Daði og Daníel Þór.

Leikur Stjörnunnar var fyrir margar sakir bara nokkuð góður. Þegar þeir gerðu tæknifeila urðu þeir ansi dýrir, en Haukarnir refsuðu þeim grimmilega úr hraðaupphlaupum. Þeir spiluðu annars ágætis sóknarleik. Egill Magnússon átti mjög góðan leik sem og Aron Dagur Pálsson.

Hvað gekk illa?

Egill (9) og Aron Dagur (7) voru markahæstir hjá Stjörnunni, en næstu menn voru ekki með nema fjögur og svo tvö mörk. Ari Magnús var í gjörgæslu hjá Haukunum og fáir aðrir náðu sér á strik. Einnig munaði heldur betur um markvörsluna; á meðan Björgvin varði 19 skot vörðu markmenn Stjörnunnar samtals níu.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer næst út á nes og mætir Gróttu, en Stjarnan er með fjögur stig eftir fyrstu tvo leikina. Liðið þarf að fara safna fleiri stigum, svo mikið er ljóst. Haukarnir fá Fram í heimsókn sem unnu Aftureldingu í kvöld, en Framarar slógu Hauka út úr úrslitakeppninni síðasta vor.

Gunnar: Stigin sex verða ekki tekin af okkur

„Ég var mjög ánægður með hraðaupphlaupin. Við skoruðum mikið úr hröðum upphlaupum og náðum að refsa þeim mikið,” sagði Gunnar Magnússon, þjálfara Hauka, í samtali við íþróttadeild 365 eftir sigurinn góða.

„Sama skapi var þetta með því betra sóknarlega sem við höfum sýnt í þessari byrjun. Ég er hrikalega ánægður með drengina í kvöld. Mér fannst við virkilega góðir í öllum fösunum; vörn, markvarsla, sókn og hraðaupphlaup.”

Haukarnir hikstuðu aðeins í síðasta leik þar sem þeir töpuðu fyrir grönnum sínum í FH, en leikmenn voru vel gíraðir í að sýna sig og sanna í kvöld.

„Stjörnumenn eru mjög sterkt lið og það er erfitt að stöðva þá og hvað þá koma hingað og ná í stig. Ég held að við höfum spilað þetta mjög vel og unnið þetta sanngjarnt.”

„Ég kallaði eftir því eftir síðasta leik að fleiri myndu stíga upp. Það mæddi mikið á Daníel þá og aðrir voru kaldir, en menn stigu upp. Ábyrgðin dreifðist á miklu fleiri og við fengum mörk allsstaðar frá. Það gladdi mig.”

Haukarnir eru komnir með sex stig af átta mögulegum og það gleður þjálfarann, en Haukarnir hafa verið að fara í gegnum helstu lið landsins undanfarnar vikur; Stjörnuna, FH og ÍBV.

„Það er bara mikilvægt að komast í gegnum þessa byrjun. Við erum með mjög erfitt prógram í byrjun, marga erfiða leiki. Það er mikilvægt að ná í stig strax í byrjun.”

„Við byrjuðum deildina illa í fyrra og ætluðum að byrja vel í ár, það eru fjórir leikir búnir og mikið eftir. Samt sem áður erum við glaðir með hvernig við spiluðum í dag. Við erum komnir með sex stig og þau verða ekki tekin af okkur,” sagði Gunnar við Vísi að lokum.

Einar: Fáum nánast enga markvörslu

„Fyrst og fremst vörn og markvarsla fór með þennan leik. Ég held að við séum með topp átta bolta varða ef það náði því,” sagði hundfúll Einar Jónsson, þjálfari Stjörnunnar, í leikslok.

„Vörnin var ekki nægilega góð heldur, þannig að það er í fljótu bragði það sem fer úrskeiðis. Sama skapi spiluðum við hrikalega góðan sóknarleik á köflum, en á milli erum við að gera slæma tæknifeila.”

Haukarnir voru duglegir að refsa heimamönnum fyrir þá tæknifeila sem þeir gerðu, en Haukarnir skoruðu hvert markið á fætur öðru úr hröðum upphlaupum með þá Hákon Daða og Halldór Inga fremsta í flokki.

„Það kostar okkur mörk í bakið og það er rosalega dýrt á meðan þeir skora úr nánast öllum sínum sóknum. Þeir eru skynsamari sóknarlega en við.”

„Við erum að taka rosalega slæmar ákvarðanir sem kosta okkur mörk í bakið. Þetta eru mjög slæmir tæknifeilar og það er ekki nægilega gott. Það er eitthvað sem við þurfum að vinna á.”

Leikur Stjörnunnar var þó ekki alslæmur og margt jákvætt mátti finna í leik liðsins, sem er að verða betri og betri.

„Við spiluðum vel sóknarlega og glefsur varnarlega. Við náðum ekki að nýta það og fáum nánast enga markvörslu. Það er erfitt gegn eins góðu liði og Haukarnir eru. Það var margt jákvætt, en ýmislegt sem við getum lagað.”

Stjarnan er með fjögur stig eftir fyrstu fjóra leikina og Einar sefur alveg rólegur.

„Þetta er fyrsti tapleikur tímabilsins svo ég er alveg rólegur. Við höldum bara áfram og ég er sannfærður um að við verðum betri eftir því sem líður á,” sagði Einar niðurlútur í leikslok.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira