Umfjöllun og viðtöl: Selfoss - Valur 23-31 | Meistararnir stungu af í lokin

Einar Sigurvinsson skrifar
Valsmennirnir Snorri Steinn Guðjónsson og Magnús Óli Magnússon.
Valsmennirnir Snorri Steinn Guðjónsson og Magnús Óli Magnússon. vísir/eyþór
Valur sótti sigur á Selfoss, 23-31, í Olís-deild karla í kvöld. Þetta var fjórði sigur Valsmanna í jafn mörgum leikjum í deildinni og eru þeir því enn með fullt hús stiga.

Selfyssingar byrjuðu leikinn af krafti og náðu 3-0 forystu eftir fimm mínútna leik. Valsmenn áttu erfitt með að komast í gegnum vörn Selfyssinga og voru oft neyddir í erfið skot fyrir aftan punktalínu. Valsmenn náðu þó að hrökkva í gírinn og um miðbik fyrri hálfleiks var staðan jöfn 5-5. Selfyssingum tókst þó að halda forskoti sínu með hjálp Helga í markinu, en hann endaði fyrri hálfleikinn með 9 varða bolta. 


Selfyssingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og voru með yfirhöndina þar til á 44. mínútu þegar Ásgeir Snær kom Val yfir í fyrsta sinn í leiknum. Vörn Vals setti síðan í lás og ekkert gekk hjá Selfyssingum að koma boltanum yfir línuna. Valur skorar næstu þrjú mörk og ná fjögurra marka forystu, 19-23 þegar 12 mínútur eru eftir. 



Á þessum tímapunkti var sigurinn aldrei í hættu hjá Val. Vörnin stóð þétt og þeir kláruðu flest allar sínar sóknir með marki. Virkilega jafn og spennandi leikur á Selfossi, sem Valsmenn náðu þó að enda með að vinna nokkuð örugglega. 


Af hverju vann Valur leikinn?

Valsmenn misstu aldrei taktinn. Leikurinn var hnífjafn í 50 mínútur en um leið og Selfyssingar lentu undir var eins og þeir misstu hausinn og forskot Vals var aldrei í hættu.



Fyrir utan fyrstu mínútur leiksins voru Valsmenn að spila virkilega góðan og stöðugan leik. Vörnin stóð þétt eins og venjulega og sóknarleikurinn var sá besti sem Valur hefur sýnt hingað til í deildinni. 


Hverjir stóðu upp úr?


Breiddin í sóknarleik Vals. Í þriðja sinn á tímabilinu var markahæsti leikmaður Vals Magnús Óli Magnússon, en hann skoraði þó ekki nema 6 mörk. Mörk Valsmanna voru að koma úr öllum áttum en alls skoruðu 11 leikmenn fyrir liðið í kvöld.

Í liði Selfoss var Einar Sverrisson markahæstur með 9 mörk og þar á eftir kom Elvar Örn Jónsson með 6 mörk. Helgi Hlynsson var síðan að verja vel í marki heimamann með 14 varða bolta. 


Hvað gekk illa?

Sóknarnýting Selfyssinga var ekki góð síðari hálfleik og það munar um það fyrir liðið þegar Teitur Örn er ekki í stuði, en hann skoraði 4 mörk í kvöld.


Selfyssingar spiluðu þó mjög fínan leik lengst af og gefur 8 marka sigur Valsmanna ekki rétta mynd af leiknum.


Hvað gerist næst?

Næsti leikur Selfyssinga í Olís-deildinni verður á móti Aftureldingu, mánudaginn 9. október í Mosfellsbæ. Valur heldur síðan til Ungverjalands, en laugardaginn 7. október eiga þeir eiga leik á móti Balatonfüredi KSE í Evrópukeppninni.

Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals.vísir/vilhelm
Guðlaugur: Náðum hraða í sóknarleikinn

„Þetta var bara hörkuleikur í 60 mínútur gegn gríðarlega öflugu Selfossliði á flottum heimavelli. Geggjuð stemning, bara æðislega gaman að vera hérna í kvöld. Tilfinningin er góð að hafa unnið mjög öflugt lið hérna,“ sagði Guðlaugur Arnarson, þjálfari Vals við Vísi eftir leikinn í kvöld.

Valsmenn spiluðu virkilega góðan sóknarbolta í kvöld en fyrir leikinn í kvöld hafði aðeins botnlið Gróttu skorað færri mörk en Valur. Valsmenn endar leikinn með 34 mörk, aðeins 5 mörkum frá því að tvöfalda þau 18 mörk sem liðið skoraði gegn Fjölni í síðasta leik.

„Við höfum verið að vinna með það í svolítinn tíma að bæta í tempóið og við náðum góðum hraða í sóknarleikinn í dag. Vörnin er að halda gríðarlega vel, markvarslan kemur í seinni hálfleik. Það er það sem skilar þessu, góð vörn og við fáum mörk með.“



Byrjun Vals var ekki góð en Selfyssingar voru yfirhöndina í leiknum fram á miðjan fyrri hálfleik.

„Í byrjun leiks ná þeir að keyra svolítið á okkur og við lendum undir 3-0. Þá náum við aðeins tökum á vörninni en erum í vandræðum með markvörsluna. Við erum með tvo bolta varða í fyrri hálfleik og vörnin var ekki eins og við viljum hafa hana, hún var að leka aðeins. En við bökkum niður í 6-0 vörn og náum að loka á þeirra helstu ógnir og þá í rauninni datt leikurinn okkar megin.“



„Þetta er rosalega gott veganesti inn í verkefnið sem við erum að fara í núna, við erum að fara í skemmtilegt verkefni í Evrópu. Það er rosalega góður bónus að fara með fjóra sigra eftir fjóra leiki inn í það,“ sagði sáttur Guðlaugur Arnarsson að lokum.

Patrekur Jóhannesson.
Patrekur: Áhyggjuefni hvað við brotnum auðveldlega



„Við vorum mjög góðir í fyrri hálfleik og ótrúlega öflugir varnarlega. Sóknarlega vorum við líka beittir og skorum 15 mörk. Við vorum þannig séð með stjórn á leiknum þangað til við lendum aðeins í mótlæti í seinni hálfleik. Þá brotnum við svolítið og það er áhyggjuefni hvað við brotnum auðveldlega,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss í leikslok. 



Selfyssingar voru með góð tök á leiknum og það er ekki fyrr en á 44. sem Valsmenn ná í fyrsta sinn að komast yfir í leiknum. 



„Við klikkum, sóknarnýtingin verður verri, sérstaklega af 9 metrunum í seinni hálfleik. Þeir ná síðan nokkrum hraðaupphlaupum og þá missum við pínu haus og trú og það er svekkjandi að það hafi gerst. Kannski að vörn Vals hafi þá orðið enn þéttari. Við kannski náum ekki þessum þéttleika og markvörslu nema í 40 mínútur,“ sagði nokkuð svekktur Patrekur Jóhannesson að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira