Enski boltinn

Dýrasti varnarmaður heims: Verð lánaður í FC Meiðsli í nokkra mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta er mikið áfall fyrir Benjamin Mendy.
Þetta er mikið áfall fyrir Benjamin Mendy. Vísir/Getty
Benjamin Mendy fékk slæmar fréttir í gær en þá kom í ljós að bakvörður Manchester City er með slitið krossband.

Manchester City borgaði 52 milljónir punda, 7,4 milljarða íslenskra króna, fyrir hann í sumar. Mendy meiddist í fyrri hálfleik í 5-0 sigrinum á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Franski landsliðsbakvörðurinn fór til hnésérfræðings í Barcelona og mun fara í aðgerð í dag.

Mendy tilkynnti öllum á Twitter um meiðslin.



„Slæmar fréttir. Ég verð lánaður í FC Meiðsli í nokkra mánuði með slitið krossband en ég kem aftur sem fyrst og vonandi enn sterkari,“ skrifaði Benjamin Mendy sem er mjög líflegur á samfélagamiðlum.

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, vissi ekki eftir leikinn á móti Shakhtar Donetsk í Meistaradeildinni hversu lengi Mendy yrði frá. En þarf hann þá ekki að kaupa vinstri bakvörð í janúarglugganum.

„Við sjáum til í janúar. Við vorum að hugsa um að finna annan vinstri bakvörð næsta sumar en þurfum kannski að skoða það. Við erum með leikmenn í hópnum sem geta spilað þessa stöðu eins og þá Danilo, Fabian Delph, Fernandinho,“ sagði Pep Guardiola.

Mendy fór í skoðun til góðs vinar Guardiola, Ramon Cugat, en sá hinn sami meðhöndlaði þá Vincent Kompany and Kevin de Bruyne á síðustu leiktíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×