Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: FH - Breiðablik 0-1 │ FH ekki í topp 2 í fyrsta skipti í 15 ár

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Úr fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli
Úr fyrri leik liðanna á Kópavogsvelli vísir/ernir
Breiðablik gerði sér góða ferð til Kaplakrika í dag og sigraði FH, 1-0, í lokaumferð Pepsi deildar karla.

Leikurinn fór fjörlega af stað og var fyrsti hálftími leiksins mjög skemmtilegur á að horfa. Staðan var þó markalaus í hálfleik en það tók Blika ekki langan tíma að taka forystuna í seinni hálfleiker Aron Bjarnason átti gull af sendingu á Arnþór Atla sem tók snilldarlega á móti honum og skoraði með fallegu skoti í vinstra hornið.

FH gerði voða lítið það sem eftir lifði leiks en heimamenn vildu þó fá tvær vítaspyrnur á lokamínútum leiksins en Vilhjálmur Alvar, dómari leiksins, sá enga ástæðu til að dæma þrátt fyrir kröftug mótmæli.

Lokatölur 1-0, Breiðablik í vil, en FH endar með tapinu í 3. sæti sem er versti árangur liðsins í efstu deild síðan árið 2002.

Afhverju vann Breiðablik?

Breiðablik var sterkari aðilinn í gegnum allan leikinn. Strax á fyrstu mínútum leiksins var liðið tvívegis búið að sprengja vörn FH upp og skapa sér góð færi. Breiðablik var sterkari á öllum vígstöðum og uppskar fyllilega verðskuldaðan sigur.

Vörnin stóð sína plikkt og Gísli Eyjólfsson og Aron Bjarnason voru duglegir að setja vörn FH á hælana.

Í raun skapaði FH ekki nein alvöru færi en þetta var líklega einn besti varnarleikur Breiðabliks í sumar en vörnin hefur verið gagnrýnd mikið í sumar.

Hverjir stóðu upp úr?

Varnarlína Breiðabliks var frábær og Gulli, gamli maðurinn í marki Blika, var duglegur að stýra þeim eins og honum er lagið. Fram á við voru, sem fyrr segir, Gísli Eyjólfsson og Aron Bjarnason mjög góðir og áttu margar frábærar sendingar. Þeir léku vörn FH grátt trekk í trekk.

Það er leiðinlegt að greina frá því að í FH var eiginlega enginn sem stóð upp úr. Liðið var hægt í öllum aðgerðum og það kom lítið sem ekki neitt frá þeim.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur FH var hægur og leiðinlegur eins og hefur verið rauninn alltof oft í sumar. Það vantar ekkert upp á mannskapinn en nær allir eru að spila undir pari.

Ef Steven Lennon á ekki sinn besta leik, eins og í dag, er nánast engar líkur á að FH nái að pota inn marki.

Hvað gerist næst?

Nú þarf bara að koma í ljós hvort Heimir og Milos verði áfram stjórar FH og Breiðabliks. Allar líkur eru taldar á að Heimir verði áfram en sama er ekki hægt að segja um Milos.

Milos sagði einunigis eitt vera fyrir stafni í kvöld og það var Pallaball. Ég veit ekki með ykkur en fyrir mér hljómar það bara eins og andskoti fínt plan.

Er tími Heimis á hliðarlínu FH liðinn?vísir/eyþór
Heimir: Það þarf að hrista upp í þessu

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var að vonum svekktur í leikslok eftir að fjórða tap FH í Kaplakrika í sumar varð staðreynd eftir 1-0 tap gegn Blikum.

„Það er vonbrigði að tapa. Vildum klára þetta betur en það hefur svosem vantað stöðugleika hjá okkur í sumar. Höfum átt nokkra ágætis leiki en dottið niður þess á milli.“

Þetta er versti árangur FH í efstu deild síðan árið 2002 en liðið hafði ekki endað neðar en 2. sæti síðan þá en tapið í dag innsiglaði FH í þriðja sæti deildarinnar.

„35 stig á þessu tímabili er versti árangur okkar síðan ég veit ekki hvenær. Það er alveg ljóst að við verðum að safna fleirum á næsta ári.“

Aðspurður hvort að Heimir yrði áfram með félagið næsta sumar gaf Heimir lítið upp. Sagði að það yrði ákveðið á næstu dögum eða vikum. En ef Heimir verður áfram, þarf þá ekki að gera stórtækar breytingar?

„Það þarf að hrista eitthvað upp í þessu. Held að það sé nokkuð ljóst.“

Arnþór Ari Atlason
Arnþór Ari: Bara af því ég var í bakverði

Arnþór Ari Atlason, leikmaður Breiðabliks, var léttur í lund eftir sigur liðsins á FH.

„Þetta er búið að vera erfitt hjá okkur í sumar þannig við vorum staðráðnir að koma hingað og taka þrjú stig og ganga temmilega sáttir frá mótinu.“

Varnarleikur liðsins hefur verið harðlega gagnrýndur í sumar en stóð sína vakt í dag og veit Arnþór nákvæmlega afhverju varnarleikurinn var jafn góður og hann var í dag.

„Ég held þetta sé bara af því ég var í hægri bakverði. Um leið og ég er settur í bakvörðinn þá bara lokuðum við þessu.“

Arnþór Ari skoraði eina mark leiksins en það var bísna glæsilegt. Aron Bjarnason átti frábæra sendingu á Arnþór sem tók snilldarlega við honum og setti boltann snyrtilega í vinstra hornið. Þegar undirritaður spurði Arnþór út í markið hrósaði hann honum af sjálfsögðu fyrir móttökuna.

„Sendingin var frábær frá Aroni, við þekkjumst vel frá tíma okkar hjá Þrótti, og hann átti frábæran bolta. Móttakan var mjög góð líka, takk fyrir það, og svo var slúttið fínt.“

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH.Vísir/Ernir
Davíð Þór: Leikmenn bera ábyrgðina

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, var ekki ánægður í leikslok eftir tap FH gegn Breiðablik. 

„Vonbrigði að tapa. Sumarið hefur bara verið vonbrigði og þetta setur kannski bara punktinn yfir i-ið.“

Hann kann enga skýringu á afhverju FH hefur spilað jafn illa og raun ber vitni.

„Ég bara veit það ekki. Svona fyrir utan það að við höfum bara ekki spilað vel. Við eigum ekki skilið að vera með fleiri stig en við erum með.“

Hann sagði að leikurinn í dag hefði verið eins og mjög margir leikir í sumar hjá FH.

„Erum mikið með boltann en eigum í vandræðum með að skapa okkur eitthvað og svo fáum við skyndisókn á okkur eins og svo oft áður í sumar. Við erum allt of opnir og allt of lengi til baka. Bara sama sagan og í mörgum leikjum í sumar.“

Hann segir ljóst að FH þurfi núna að leggja hart af sér til að koma sterkari til baka næsta sumar.

„Það þarf bara að fara í einhverja vinnu núna. Við leikmenn þurfum bara að líta í eigin barm. Við getum ekki verið sáttir með þessa frammistöðu. Við þurfum að skoða hvað hefur farið úrskeiðis og hvað við getum gert til að koma sterkari til leiks að ári.“

Aðspurður hvort hann byggist við því að Heimir yrði áfram þjálfari kvaðst hann ekki gera ráð fyrir öðru og að það væru leikmenn sem bæru ábyrgðina frekar en hann.

„Hann er með samning í eitt ár í viðbót þannig ég reikna ekki með öðru. Það er ekki hann sem hefur verið inn á vellinum í sumar og það erum við leikmennirnir sem þurfum að axla ábyrgð á þessu.“

Milos Milojevic gæti hafa stýrt sínum síðasta leik með Blikavisir/ernir
Milos: Ósammála en auðvitað hafið þið rétt fyrir ykkur

„Það er alltaf gaman að vinna, hvort sem það sé hér eða einhverstaðar annarstaðar. En miðað við stærð þessa félags þá er það kannski aðeins sætara,“ sagði Milos. þjálfari Breiðabliks, eftir sigur liðsins á FH í Kaplakrika.

Vörn Breiðabliks var góð í kvöld en hún hefur átt erfitt uppdráttar í sumar.

„Vörnin er ekki bara síðustu fjórir. Vörnin þarf að vera frá fremsta manni og þeir sem spiluðu í dag lögðu sig alla fram. Sumir voru sprungnir undir lokin en svona viljum við spila. Að allir taki þátt og ég held að þett sé eina leiðin til að vinna FH.“

Aðspurður hvar þessi spilamennska hafi verið í sumar kvaðst Milos sáttur við spilamennsku liðsins yfir sumarið.

„Ég er ósammála án þess að vera reiður. Spilamennskan hefur verið góð en uppskeran því miður ekki. Í sumum leikjum vorum við frábærir en misstum kannski fókus undir lokin eins og við gerðum t.d. í dag. Í dag var okkur ekki refsað eins og svo oft áður í sumar,“ sagði Milos og hélt áfram með því að skjóta létt á fjölmiðla.

„Fjölmiðlar, með fullri virðingu, vilja oft meta það hvort lið hafi spilað vel bara útfrá úrslitum. Úrslit og spilamennska fara ekki alltaf saman. Ég þarf að vera ósammála en af sjálfsögðu hafið þið rétt fyrir ykkur.“

Hann segist ekki vita hvort hann verði áfram með Breiðablik næsta sumar og að það eigi eftir að koma í ljós á næstu vikum. En áður en þær umræður fari af stað sé Pallaball á dagskrá og því lítill tími til að hugsa um það núna.

„Við tökum bara eitt skref í einu og það er Pallaball í kvöld þannig það er eina sem við hugsum um núna.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira