Handbolti

Björgvin Páll nýtur lífsins á Íslandi: Vinnur með krökkum með fjölþættan vanda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar

Björgvin Páll Gústavsson varði 18 skot, eða tæpan helming þeirra skota sem hann fékk á sig, þegar Haukar unnu ÍR, 21-19, í 1. umferð Olís-deildar karla í gær. Þetta var fyrsti leikur Björgvins í Olís-deildinni síðan 2008.

Landsliðsmarkvörðurinn nýtur þess að vera kominn heim. Hann er með mörg járn í eldinum en auk þess að spila með Haukum er Björgvin í tveimur vinnum.

„Ég er glaður að vera kominn heim og í íslenska boltann. Það sem er að gerast í kringum hann er æðislegt,“ sagði Björgvin í samtali við Arnar Björnsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hann finnur sig betur hérna heima en í Þýskalandi þar sem hann spilaði lengi.

„Mér finnst þetta skemmtilegra. Það er miklu meiri ástríða og menn eru að gera þetta fyrir allt önnur gildi,“ sagði Björgvin sem segist ekki sakna Þýskalands.

„Í rauninni ekki. Ég væri að ljúga ef ég segði já. Ég var búinn að sakna Íslands í níu ár og er loksins kominn heim. Ég kem heim á góðum aldri og get látið til mín taka í atvinnulífinu og boltanum.“

Eins og áður sagði er Björgvin upptekinn maður, enda í tveimur vinnum.

„Ég er markaðsstjóri hjá fyrirtæki sem heitir TMARK og svo er ég að vinna í Vinakoti sem er úrræði fyrir krakka með fjölþættan vanda,“ sagði Björgvin.

„Ég er að vinna með krökkum sem voru í sömu sporum og ég þegar ég var yngri. Handboltinn bjargaði mér en það hafa ekki allir handboltann eða sportið. Það þarf að finna hvað krökkunum finnst gaman, nýta það og gera þá að sterkari einstaklingum.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir

Björgvin Páll: Í fyrsta skipti í langan tíma er ég stressaður fyrir leik

"Þetta er sigur. Þetta var erfiður sigur, en við vorum með þá allan leikinn þó við misstum þetta í tæpan leik í restina,” sagði Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Hauka, í samtali við Vísi í leikslok eftir tveggja marka sigur Hauka á ÍR í fyrstu umferð Olís-deildar karla.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira