Skoðun
Guðmundur Edgarsson kennari.

Mýtan um Norðurlöndin

Guðmundur Edgarsson skrifar

Hún er lífseig mýtan um að hagsæld Norðurlandanna byggi á víðtæku velferðarkerfi og háum sköttum. Ef svo væri myndu lönd eins og Frakkland, Grikkland og Ítalía njóta sams konar velgengni. Þrátt fyrir skattagleði þessara ríkja og rausnarlegs velferðarkerfis er staðan í þessum löndum hins vegar óralangt frá því að vera viðunandi. Löndin glíma við gríðarlegar skuldir, langvarandi atvinnuleysi og stöðnun á mörgum sviðum. Það sem Norðurlöndin hafa haft fram yfir flest önnur samanburðarlönd er því ekki hið margrómaða velferðarkerfi heldur aðrir þættir.

Menningin skýringarþáttur
Þannig er að Norðurlöndin hafa þá sérstöðu að vera tiltölulega fámenn og einsleit samfélög. Íbúarnir tala sama tungumálið og deila sömu sögu, trú og hefðum. Hugsunarháttur og lífsstíll er áþekkur sem dregur úr líkum á spillingu og valdabrölti í stjórnkerfinu. Í ofanálag hafa Norðurlöndin búið við tiltölulega frjálst atvinnulíf sem lagt hefur grunninn að traustum efnahag þeirra. Það sem ennfremur bendir til þess að hin norræna menning sé mun sterkari áhrifaþáttur í velgengni Norðurlandanna en háir skattar og viðamikið velferðarkerfi er að norrænu fólki vegnar mun betur í Bandaríkjunum en á Norðurlöndunum þar sem skattar eru mun hærri. Atvinnuleysi meðal norrænna Bandaríkjamanna er til að mynda mun minna, laun hærri og félagslegur hreyfanleiki talsvert meiri en þekkist á Norðurlöndunum.

Norðurlöndin áður fyrr
Þá nutu Norðurlöndin mun meiri velgengni en önnur vestræn ríki áður en norræna velferðarmódelið var tekið upp í kringum 1960. Fyrir 1960 voru lönd eins og Danmörk og Svíþjóð með markaðsdrifnari löndum hins vestræna heims. Skattar voru lágir, opinberi geirinn lítill og velferðarþjónusta miðaðist við þá sem ekki voru bjargálna. Löndin bjuggu við þróttmikið efnahagslíf og velferð á flestum sviðum í samanburði við önnur ríki. Tíðni ungbarnadauða var með því lægsta sem þekktist, ævilíkur meðal þeirra hæstu í heiminum, fátækt minni og menntunarstig hærra en finna mátti annars staðar. Norræna velferðin virðist því byggja á menningartengdum þáttum fremur en umfangsmiklu velferðarkerfi og ofursköttum.
 
Höfundur er kennari.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira