Sport

Áfrýjun Gunnars hafnað og úrslitin standa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hér má sjá Ponzinibbio með puttana á kafi í báðum augum Gunnars.
Hér má sjá Ponzinibbio með puttana á kafi í báðum augum Gunnars. mynd/jerry mccarthy ko! media

Úrslitunum í bardaga Gunnars Nelson og Santiago Ponzinibbio verður ekki breytt en UFC tók áfrýjun Gunnars ekki til greina. Gunnar og hans teymi kærðu niðurstöðu bardagans vegna augnapots Argentínumannsins.

Ponzinibbio rotaði Gunnar í fyrstu lotu bardagans sem fór fram í Glasgow þann 16. júlí í sumar. Fljótlega eftir bardagann var niðurstaðan kærð en talsverðan tíma tók að fá niðurstöðu í málið.

Paradigm Sports Managament umboðsskrifstofan sem er með Gunnar sem skjólstæðing greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Haraldur Nelson, faðir Gunnars og framkvæmdastjóri Mjölnis, sagði í samtali við vef MMAfrétta að niðurstaðan komi honum ekki á óvart. Hann segir að UFC sé með þessu að senda viss skilaboð.

„Ef þú kemst upp með það í búrinu þá er ekkert gert í málinu. Mjög dapurlegt,“ sagði hann.

Gunnar hefur þegar greint frá því að hann muni ekki berjast frekar á árinu þar sem að hann ætlar að gefa sér tíma til að hvíla höfuðið eftir áverkana sem hann hlaut í bardaganum í Glasgow.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira