Skoðun

Óupplýstur kostnaður, skuldir og rekstrartöp Hörpu

Örnólfur Hall skrifar
Enn er fyrirspurn Péturs H. Blöndal heitins um kostnað og rekstur Hörpu ósvarað á Alþingi, þ.e.a.s. hver er hinn enn óupplýsti heildarkostnaður hennar. Upplýsingar vantar enn um rekstur og rekstraráætlanir frá A-Ö! Pétur vildi allt upp á borðið:

„Fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra um rekstur Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss. Frá Pétri H. Blöndal (Þingskjal 1173/699. mál).

1. Hve háum fjárhæðum hefur ríkissjóður varið árlega til reksturs Hörpu frá því að bygging hússins hófst? Hvert er framlagið áætlað 2015? Hverjar hafa verið tekjur, gjöld og sjóðstreymi á verðlagi hvers árs og uppreiknað miðað við vísitölu neysluverðs til mars 2015?

2. Hafa framlög ríkisins til stofnana sem eru með rekstur í húsinu hækkað vegna flutnings þeirra þangað og ef svo er, hversu mikið?

3. Hver er rekstrargrundvöllur Hörpu næstu 30 árin, tekjur og gjöld með og án afskrifta sem og sjóðstreymi?

4. Hve há voru framlög ríkisins til tækjakaupa í Hörpu og hvað gerðu áætlanir ráð fyrir að verja mætti háum fjárhæðum til þeirra?

5. Hvað er gert ráð fyrir háum fjárhæðum árlega til viðhalds hússins næstu 30 árin?

6. Hve mikið kostaði glerhjúpur hússins og hver er árlegur rekstrar- og viðhaldskostnaður hans?

7. Hvers vegna hefur rekstraráætlun hússins, sem Ríkisendurskoðun fór á sínum tíma yfir og taldi í lagi, ekki gengið eftir og hver eru stærstu frávikin?

8. Getur ríkissjóður hætt við skuldbindingu vegna samningsins frá 19. febrúar 2009 um að halda áfram framkvæmdum? Er ekki um að ræða skuldbindingu sem þarf að byggjast á heimild í fjárlögum, sbr. 40. og 41. gr. stjórnarskrárinnar?“ Skriflegt svar óskast. Pétur H. Blöndal. – Þessu hefur aldrei verið svarað heldur:

a) Hvað kostaði Hörpulóðin öll og að gera hana byggingarhæfa?

b) Hvað kostaði jarðvinnan og niðurrif bygginga?

c) Hvað kostuðu sjófyllingar og hvað kostaði að fjarlægja aðrar?

d) Hvað kostuðu gatnatengingarnar?

e) Hvað kostaði torggerðin?

9. Hver var meðgreiddur og afleiddur kostnaður, skattgreiðenda, fyrir fyrri ónýta niðurrifna ,stuðlavegg‘ Hörpu (vegna klúðurs verktaka) sem sigldi sem brotajárn til Spánar?

10. Hver voru heildarlaun krosstengdu Hörpu-,samvinnufélaganna‘ 7: Portus, Situs, Totus, Ago, Hospes, Castos og ekki má gleyma sérbanka Hörpu, Hringi (,HarpBank‘) ?

Skattgreiðendur hafa ekki fengið að sjá heildarkostnaðinn á þeirri krosstengdu ,hringferð‘ og fjársukki!

11. Ofurviðhaldið á húsinu er alls 161 milljón á aðeins 5 árum (árin 2010-15 – en árið 2016-17 vantar, sjá fjárlög og svör til fjárlaganefndar þar um).

12. Hvar eru stórráðstefnurnar (5-6 þúsund manns) sem allar hafa brugðist? Þær áttu að gera Hörpu sjálfbæra í síðasta lagi 2014.

13. Sífellt rekstrartap er líka stór baggi á skattgreiðendum – nú síðast 684 milljónir (síðasti ársreikningur).

14. Þjóðskrá Íslands reiknar fasteignamat samkvæmt gangverði á allar fasteignir. Við nýlegt endurmat á fasteignamati Hörpu var útbúin ný tekjumatsaðferð, samkvæmt dómi Hæstaréttar, sem beitt verður á öll ráðstefnu- og tónleikahús. Til grundvallar þeirri aðferð var meðal annars lagt mat á leiguverð tónlistarhúsa, ráðstefnurýma, skrifstofueigna og verslunareigna, þar á meðal verð úr Hörpunni sjálfri.

15. Viðburða- og tónleikafjöldinn dugar Hörpu alls ekki – og nauðsynlegt er að tvöfalda útleiguverð og þar með miðaverð!

ES: Fréttir herma að mikið stefnuleysi og rekstrarvandi sé hjá Hörpu og m.a. um 450 milljóna nauðþurft !

Örþrifatilraun er nú gerð til tekjuöflunar með 300 kr. klósettgjaldi á túrista og gesti.

ES: Allt fjármáladæmið: Nauðhjálparbeiðni um 450 milljónir + rekstrartap 684 milljónir (samkvæmt ársreikningi 2016) + ársmeðlag 617,1 milljón frá ríki/fjármálaráðuneyti = 1,751 milljarðs skuldabaggi okkar skattgreiðenda fyrir árið 2016. Venjulega fasta meðlagið á ári – um 1,5 milljarðar – eru svo þar fyrir utan!

Ársskýrslan 2017 verður forvitnileg?

 

Höfundur er arkitekt.




Skoðun

Sjá meira


×