Innlent

Samþjöppun í ferðaþjónustu líkleg

Sunna Sæmundsdóttir skrifar

Hægja mun á fjölgun ferðamanna á næstu árum eða misserum og það mun fela í sér miklar áskoranir fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Samþjöppun í greininni er talin líkleg, þar sem minni fyrirtæki gætu orðið undir.

Greiningardeild Arion banka kynnti í dag árlega ferðaþjónustuúttekt þar sem gert er ráð fyrir hægari fjölgun ferðamanna á næstu árum.Í fyrra fjölgaði ferðamönnum um tæplega 40% milli ára og búist er við um 35% fjölgun í ár. Samkvæmt spá Arion banka verður fjölgunin mun hægari á næsta ári.

„Okkur finnst líklegast að ferðamönnum haldi áfram að fjölga. Í grunnsviðsmyndinni erum við að gera ráð fyrir að þeim fjölgi um 11% á næsta ári en að svo hægi á niður í 6% vöxt árið 2020," segir Konráð S. Jónsson, hagfræðingur í Greiningardeild Arion banka. 

Hægari fjölgun ferðamanna og aðrir ytri þættir gætu reynt verulega á fyrirtæki í greininni.

„Ef maður horfir svona áfram næstu ár erum við að sjá ennþá meiri launahækkanir, líklega að krónan verði áfram sterk, við erum að sjá hægari vöxt í ferðaþjónustu og virðisaukaskattshækkanir ofan á það. Þannig það mun vægast sagt leiða til áskorana fyrir þá sem eru í rekstri í ferðaþjónustu," segir Konráð.

Samþjöppin í greininni er talin líkleg þar sem minni fyrirtæki gætu orðið undir.

„Okkur sýnist vera svigrúm fyrir stærðarhagkvæmni og okkur finnst líklegt að það muni svolítið reyna á það núna þegar mesti vöxturinn og mesta velgengnin í heild virðist liðin í bili," segir Konráð.

Þrátt fyrir að hægja muni á vextinum er gert ráð fyrir mikilli vöntun á starfsfólki á næstu árum.

„Við gerum ráð fyrir að það verði allt að sjö þúsund störf til það sem eftir er áratugsins í ferðaþjónustunni og miðað við mannfjöldaspár kallar það á talsverðan innflutning vinnuafls," segir Konráð.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira