Innlent

Stefnt á þrettán nýjar hleðslustöðvar

Samúel Karl Ólason skrifar
Til að hvetja til orkuskipta í samgöngum og fjölgun rafbíla verður rafmagnið á hleðslustöðvunum endurgjaldslaust.
Til að hvetja til orkuskipta í samgöngum og fjölgun rafbíla verður rafmagnið á hleðslustöðvunum endurgjaldslaust. Vísir/GEtty

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi í dag að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna uppsetningar á 58 hleðsluúrtökum fyrir rafbíla á þrettán stöðum í miðborginni. Í tilkynningu frá borginni segir að slíkar hleðslustöðvar séu í samræmi við markmið Reykjavíkur um að styðja við umhverfisvæna samgöngumáta, draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og bæta loftgæði í borginni.

Um er að ræða svokallaðar hæghleðslustöðvar sem hlaða rafbíla að fullu á tveimur til fimm klukkustundum. Þær verða á veggjum bílastæðahúsa Bílastæðasjóðs og á stöndum með hleðsluúrtökum við götustæði.

„Til að hvetja til orkuskipta í samgöngum og fjölgun rafbíla verður rafmagnið á hleðslustöðvunum endurgjaldslaust. Sú ákvörðun er tímabundin þar til annað verður ákveðið,“ segir í tilkynningunni.

„Bílastæði með hleðslustöðvum við götur sem Reykjavíkurborg rekur verða gjaldfrjáls fyrstu 90 mínúturnar líkt og önnur gjaldskyld stæði fyrir vistvæn ökutæki. Gerð verður krafa um það í útboðsgögnum að samningsaðili útvegi og starfræki rekstrarkerfi fyrir hleðslustöðvarnar og að notendum bjóðist smáforrit fyrir snjalltæki þar sem m.a. má sjá lausar stöðvar.“

Áætlað er að heildarkostnaðurinn verði um 40 milljónir króna. Styrkur frá Orkusjóði er tæpar ellefu milljónir. Reiknað er með að framkvæmdir við uppsetningu hleðslustöðvanna hefjist í október og standi fram í mars á næsta ári.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira