Lífið

Gera svo fjölmargt annað en að búa til tónlist

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Einar Egilsson og Svala Björgvinsdóttir voru stödd á Íslandi á dögunum.
Einar Egilsson og Svala Björgvinsdóttir voru stödd á Íslandi á dögunum. Visir/Eyþór
Við gerum ekki bara tónlist,“ segir Einar Egilsson glottandi út í annað en hann og Svala Björgvinsdóttir, eiginkona hans, eru nýkomin af stað með hljómsveitina sína Blissful og hafa þegar gefið út tvö lög. Eftir að hafa eytt merkilega löngum tíma með þeim hjónakornum kemst maður fljótt að því að þau eru upptekin hjón og verkefnaskortur er ekki fram undan.

Þau hjónin komu til Íslands þegar Svala var að spila á Menningarnótt og nýttu tímann til að taka upp tvö tónlistarmyndbönd, annað fyrir Blissful og hitt fyrir plötufyrirtækið Spinnin’ Records frá Los Angeles, en Einar leikstýrði þeim báðum. Einar hefur leikstýrt fjöldanum öllum af tónlistarmyndböndum og auglýsingum í Los Angeles síðastliðin ár. „Hann gerði öll myndböndin fyrir hljómsveitina okkar, Steed Lord, og fyrir mig. Hann gerði til dæmis myndbandið við Paper og hann hefur líka hannað plötuumslög, tekið ljósmyndir og bara nefndu það,“ segir Svala stolt af sínum manni.

Það er einhver ára yfir þeim sem segir manni að þarna fari ástfangið par sem ber mikla virðingu hvort fyrir öðru og hvað hitt leggur til málanna. „Við vinnum auðvitað með alls kyns hæfileikaríku fólki en leitum ekki út fyrir nema að litlu leyti. Ég sé ekki um hárið á Svölu til dæmis. Ég læt annan gera það,“ segir hann.

Þau lýsa sér sem frekjudollum sem vinna vel saman. „Okkur finnst ótrúlega gaman að vinna saman. Við erum búin að vera saman lengi og vinna saman mjög lengi. Það er komin mjög góð reynsla á þetta fyrir­komulag. Við vorum saman í Steed Lord í meira en áratug og rákum heila hljómsveit. Fyrir það vorum við DJ teymi og að vinna fyrir alls konar tímarit þar sem Einar var að ljósmynda og ég að stílisera. Það er komin góð vinnureynsla hjá okkur og við slökkvum á okkur þannig lagað. Því þegar við vinnum saman erum við ekki hjón,“ segir Svala.

Einar bendir á að það hafi svo sem verið sagt áður. „Það kemur aldrei inn í vinnuna að við séum hjón. Við höfum aldrei, 7-9-13, lent í hjónarifrildi í vinnunni. Á settinu erum við að vinna. En þegar maður leggst á koddann þá kannski ræðum við eitthvað sem hefði mátt gera betur. Við höfum bæði ákveðna kosti og galla og vinnum þannig saman. Við erum alltaf að skapa og gera betur, eitthvað að búa til og hugsa um næsta verkefni. Við ýtum hvort við öðru og reynum að skora á hvort annað að gera betur en síðast,“ segir hann.





Illskiljanlegur Eurovision heimur

Svala flutti Paper á stóra sviðinu í Kænugarði í Eurovision. Lagið komst ekki áfram en litlar þjóðir hafa átt undir högg að sækja í keppninni. Hún segist ganga stolt frá borði, með fullt af minningum sem hún muni geyma um aldur og ævi og hver veit nema nýtt Eurovision lag muni heyrast frá henni. Það verður bara ekki í hennar flutningi.

Stelpurnar í Icelandic Sync, Steinunn og Soffía, sem eru umboðsmenn Svölu, voru með allar klær úti og komust að því að fjöldi fólks í Eurovision heiminum vill vinna með Svölu. „Það er auðvitað þannig að lagahöfundarnir koma hvaðanæva. Það eru alls konar þannig fyrirspurnir í gangi og við erum að skoða það. Okkur finnst skemmtilegt að geta samið fyrir aðra listamenn. Þá er ég ekkert að fara að flytja lagið. Það er alveg spennandi og gæti vel verið að við gerum það.“

Meðal þeirra sem hafa lýst vilja til að vinna með þeim er höfundur lagsins Euphoria sem tryggði Svíum sigur í keppninni 2012. „Hann hefur áhuga á að vinna með okkur og við ætlum að reyna að hittast og semja saman við tækifæri. Við erum líka í sambandi við fullt af öðru liði sem við kynntumst í keppninni í Úkraínu. Til dæmis NormaJohn tvíeykið frá Finnlandi en við náðum rosa vel saman og okkur langar að semja tónlist saman við tækifæri. Einnig er ég í sambandi við Linditu sem keppti fyrir hönd Albaníu, hún býr í LA og Atlanta og okkur langar að hittast og gera eitthvað tónlistartengt saman.“

Hugmyndin að senda Paper í Eurovision fæddist þegar Einar var á Facebook og sá að það var síðasti dagur til að senda inn lög fyrir undankeppnina á Íslandi. „Það var ekki mín hugmynd að senda lagið inn heldur hans,“ segir Svala og lítur á hann og brosir. „Við vissum að Paper væri stórt lag og það ætti heima á stóru sviði,“ segir Einar og heldur áfram: „Maður sér þetta stundum fyrir, eins og Paper sem hefur þessar stóru laglínur í viðlaginu. Maður reynir að láta þetta passa á eitthvert svið. Við vorum búin að eiga þetta lag í smá tíma. Fundum ekki neinn vettvang fyrir það einhvern veginn. Svala vildi ekki láta annan listamann fá það því við sömdum það um mjög persónulega reynslu Svölu en það var töluverður áhugi á laginu úti. Ég var á Facebook og það kom upp hjá mér að það væri síðasti dagur til að senda inn lag. Ég kallaði á hana og spurði hvort við ættum ekki bara að senda lagið inn. Hún sagði nei, alveg strax.“

Svala segir að að hún hafi ekkert verið á leiðinni í Eurovision. „En svo fór ég fór að hugsa þegar hann sagði þetta við mig að ef ég ætlaði einhvern tíma að keppa þá ætti ég að gera það núna með nákvæmlega þessu lagi. Ég gat farið í þetta heilshugar því ég samdi lagið og ég gat staðið og fallið með því hvað sem myndi gerast. Forsendurnar voru réttar. Við komumst ekki áfram en ég var samt stolt af laginu og atriðinu mínu. Ég gerði mitt besta en ég réð ekki útkomunni.“

Einar segir að Eurovision heimurinn sé svolítið skrýtinn. Hann sé eiginlega enn að klóra sér í hausnum yfir honum því hann sé illskiljanlegur. „Þetta var mjög skrýtinn heimur að vera í og það er svolítið sérstakt að keppa í tónlist. Ég er enn að reyna að átta mig á honum. Samt var ég þar. Hvað virkar? Hvað virkar ekki? Af hverju fór þetta lag áfram en ekki hitt?“

Svala tekur í svipaðan streng. „Það voru atriði sem mér fannst alveg meiriháttar flott sem komust ekki áfram. Á meðan voru lög að komast áfram þar sem manneskjan gat varla haldið lagi. En það var gaman að taka þátt og í raun ekkert neikvætt við það. Frábær reynsla sem fer í reynslubankann þó auðvitað vildi ég komast áfram í lokakeppnina og enda í topp tíu en ég meina hver vill það ekki sem keppir í svona keppni?“ Einar bætir við að Eurovision ferðalagið hafi verið mögnuð upplifun. Fagmennskan hjá hópnum og stemningin innan hans hafi verið upp á tíu. „Reynslan að hafa farið er alveg mögnuð. Og frábært tækifæri sem lagahöfundur að fara í þetta og fá reynsluna. Það hefur margt komið út úr þessu.“

Feiminn við Svölu

Talandi um að semja lög. Einar semur nánast allar laglínur með hummi og það tók hann smá tíma að opna sig fyrir reynsluboltanum Svölu sem hefur samið lög frá því að hún var unglingur. „Ég er svo ævintýralega falskur, þess vegna humma ég. Svala getur vitnað um það.“ „Algjörlega,“ segir hún fljótt. Jafnvel of fljótt. „En hann kemur með góðar laglínur og það er alveg nóg þegar maður er lagahöfundur,“ bætir hún við og nær að bjarga sér. „Þetta var feimnismál fyrir mig, eins og til dæmis í Steed Lord. Að vinna við hlið Svölu sem er búin að vera að semja lög síðan hún var unglingur. Ég hef alveg búið til takta og svoleiðis en melódía lagsins, það er öðruvísi. Stundum kemur lagið bara eins og þruma úr heiðskíru lofti en aldrei í sturtunni! Aldrei. Oftast gerist þetta þegar við ákveðum að setjast niður og semja lag.“

Svala bendir á að lög geti fæðst jafn misjafnlega og þau eru mörg. Paper hafi orðið til á fáeinum klukkustundum enda hafi það nánast skrifað sig sjálft. „Stundum getur það tekið óratíma að semja lög. Það getur tekið sum lög langan tíma að koma og þá er endalaust verið að finna út úr laglínunni – hvað virkar og hvað ekki. Stundum er eitthvert píanóstef sem vindur lagið áfram, stundum bassalína, stundum er það textinn. Kannski er eitthvert gítarriff. Það er svo misjafnt eftir lögum hvernig þau verða til.“

Svala og Einar semja mikið með hinum og þessum lagahöfundum í Los Angeles og fara í svokölluð „sessjón“­ eins og það kallast. Þegar Einar er beðinn um að útskýra hvað hann meini með að setjast niður og semja lög segir hann að sessjón virki mjög vel fyrir sig. „Sessjón er eins og að fara með autt blað og ákveða að semja sögu. Við höfum stundum fimm til sex klukkutíma til þess að semja, yfirleitt er það tíminn þegar maður semur með öðrum lagahöfundum í hinum og þessum stúdíóum í borginni. Það er erfitt stundum en það kemur yfirleitt alltaf eitthvað gott og jákvætt út úr því. Það er líka ákveðin áskorun að semja undir tímamörkum. Við höfum aldrei farið út með hangandi haus. Mér finnst gaman að semja tónlist – sem hjálpar og mér finnst gaman að fara í sessjón með öðrum lagahöfundum. Innblásturinn getur líka komið á svo mismunandi tíma. Við lítum á það sem vinnu að setjast niður og semja tónlist, það hljómar kannski skringilega en það virkar vel fyrir okkur.“

Svala segir að andagiftin geti komið yfir sig hvenær og hvar sem er. „Maður veit aldrei. Þá grípur maður hana og syngur hugmyndina inn í símann sinn. Ætli það séu ekki svona 3.000 memós í símanum mínum. Þessi setning, þetta orð, þessi laglína. Sumt er algjört drasl og sumt er nothæft. Við höfum verið að semja mikið af tónlist í LA með öðrum tónlistarmönnum sem eru að semja mikið fyrir stórstjörnur eins og Selenu Gomez og Justin Bieber.­ Þetta er frekar lítill bransi og við erum komin með tærnar þarna inn. Til dæmis vorum við að semja lag um daginn sem er verið að skoða hjá plötufyrirtæki í Japan. Lögin sem við erum að gera enda ekki endilega alltaf hjá okkur heldur hjá einhverjum öðrum. “

Sumir mánuðir erfiðir

Að vera sjálfstæður listamaður getur tekið á og er auðvitað stanslaus vinna. Enda upplýsa þau að frí séu af skornum skammti en þau líta reyndar á vinnuna eins og frí því þau elska að vera í vinnunni og þurfa lítinn tíma til að hlaða batteríin. Jafnvel bara klukkutíma. Þá er reyndar gott að búa í Los Angeles þar sem sólin skín á hverjum degi. „Þetta er alltaf erfitt. Allir listamenn þekkja það,“ segir Einar og Svala tekur undir. „Þetta er upp og niður, upp og niður. Stundum er maður blankur og stundum á maður smá pening. Við höfum sagt frá því að við gerum margt annað en bara tónlist. Við erum með puttana í alls kyns verkefnum.

Við höfum ekki farið í frí síðan 2004 en við ferðumst mikið út af vinnunni okkar og fáum að koma á nýja staði og í nýjar borgir og við lítum á það sem smá frí þótt við séum í vinnunni og stoppið sé oftast bara einn til tveir dagar.“ Einar tekur undir. „Við búum líka í LA og það er alltaf hægt að gera sér glaðan dag því þar er auðvitað alltaf gott veður. Þótt það sé stundum óþolandi að það sé alltaf sól. En klukkutími í einhverjum garði?… Þá líður manni eins og að vera í fríi.“ Þau benda reyndar á að það geti líka verið óþolandi að hafa ekkert veður og vita fátt betra en góðan, hressilegan, íslenskan vind. „Og sund. Ég elska líka íslensku sundlaugarnar. Veður og sund. Það er eitthvað,“ segir Einar og hlær.

Fram undan hjá þeim er Blissful lestin sem er komin á fulla ferð enda EP plata á leiðinni. Næstu mánuði eru þau að klára plötuna og munu svo halda sína fyrstu tónleika á Airwaves í nóvember. Svala hefur verið lengi í bransanum og hefur lifað tímana tvenna. Hún segir að hver sem er geti gefið út sína eigin tónlist og fagnar þeim breytingum sem hafa orðið á bransanum. „Það sem er æðislegt við þessa þróun er hvað margir geta gefið út sína eigin tónlist án plötufyrirtækis. Það skiptir engu hvernig þú lítur út, hvaða bakgrunn þú hefur, hvað þú ert gamall o.s.frv. Allir eiga tækifæri á að gefa út sína eigin tónlist og það er frábært, því áður fyrr varðstu að vera á samningi hjá plötufyrirtæki og þurftir stundum að líta út á sérstakan hátt og fara í gegnum allt þetta ferli. 





Svala og Einar stoppuðu stutt á Íslandi fyrir skömmu og létu verkin tala. Tóku upp tvö myndbönd, meðal annars fyrir hljómsveit sína Blissfull. Visir/Eyþór
Tikka í ákveðin box

Í dag þarftu þess ekki. Mér finnst það frábært og nærtækasta dæmið er auðvitað hér á Íslandi. Hér eru fjölmargir að gefa út sína eigin tónlist og margir hverjir alveg hreint út sagt frábærir. Ótrúleg gróska í gangi og mikið sjálfstæði í tónlistarmönnum og ég ber mikla virðingu fyrir því. Mér finnst þetta frábær þróun og ég styð þetta heilshugar.

Við höfum verið sjálfstætt starfandi lengi en þar áður var ég alltaf undir hatti stórfyrirtækja, alveg frá því ég var 16 ára. Með Steed Lord náðum við að vera sjálfbær hjómsveit í áratug og túra út um allan heim og vera með tónlistina okkar í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum og gerðum fatalínu fyrir H&M án þess að vera með neinn bakhjarl og án neins plötufyrirtækis. Við gerðum þetta bara sjálf. Það er auðvitað enginn lykill að frægð og frama að vera á einhverjum plötusamningi. Maður þarf að vinna að þessu sjálfur að einhverju leyti.“

Indverskur jólamatur

Árið er nánast fullbókað hjá Svölu en hún er að fara að syngja á fjölmörgum jólatónleikum og hlakkar mikið til en síðan ætla þau Einar að ná að slaka aðeins á og njóta lífsins í Los Angeles. „Við hlökkum til að vera heima yfir jólin þar sem við búum í sætri íbúð á fallegum stað og eigum kisu sem heitir Lúsí og það nægir okkur,“ segir Svala og bætir við að upplifun af íslenskum jólum sé stundum svolítið stressandi og auðvitað allt öðruvísi en í LA. „Síðastliðin ár höfum við notið þess að eyða jólunum í Los Angeles og okkur finnst það yndislegt en auðvitað söknum við þess að vera ekki í faðmi fjölskyldunnar en þar kemur Skype sterkt inn. Við eyðum mjög litlu í gjafir og pöntum bara indverskan mat. Þetta eru voða ljúf jól hjá okkur og ekkert stress,“ bætir hún við. „Við erum samt ekki með jólatré,“ skýtur Einar inn í. „Fáum okkur tré núna,“ segir Svala ákveðin. „Iss, þú segir þetta alltaf,“ segir Einar og brosir til hennar.

Spurður um önnur verkefni bætir Einar við: „Ég er búinn að vera að skrifa handrit að sjónvarpsseríu síðastliðna mánuði,“ segir hann án þess að depla auga. „Ég er að skrifa seríuna með Elíasi Kofoed vini mínum sem var að klára nám í handritagerð hér í LA. Við hittumst í partíi og vorum báðir að segja einhverjar fyndnar persónulegar sögur og urðum skotnir í frásagnarstíl hvor annars. Það var búið að blunda lengi í mér að fara að skrifa af alvöru. En við Elías náum ótrúlega vel að vinna saman og höfum góða tilfinningu fyrir þessu sem við erum að skrifa. Ég vil ekki gefa mikið upp hvað sjónvarpsserían er um enda erum við ennþá að skrifa en þetta fjallar í stuttu máli um Íslending sem er búinn að koma sér í vandræði í Los Angeles og fortíðin eltir hann uppi. Svo er ég líka að klára að skrifa stuttmynd,“ bætir hann við eins og það sé bara sjálfsagður hlutur.

Það er ljóst að þau gera svo margt annað en að búa bara til tónlist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×