Innlent

Setur stefnuna á félagshyggjustjórn eftir kosningar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir er formaður Vinstri grænna. Stefnan hjá Vinstri grænum er sett á félagshyggjustjórn.
Katrín Jakobsdóttir er formaður Vinstri grænna. Stefnan hjá Vinstri grænum er sett á félagshyggjustjórn. vísir/anton brink

„Ég tala fyrir því að VG stefnir á það að fara í ríkisstjórn að loknum kosningum og leiða félagshyggjustjórn. Það verður náttúrulega ekki nema að við náum góðum árangri þannig að það er náttúrulega verkefni númer eitt, tvö og þrjú.“ Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna í samtali við Vísi.

Vinstri græn blésu í kvöld til fundar á Vesturgötu 7 til að „fara yfir stöðuna sem upp er komin í stjórnmálunum,“ eins og segir í fréttatilkynningu.

Katrín segir að félagsmenn séu tilbúnir í kosningar og að samhljómur sé um að áherslur flokksins eigi fullt erindi. Hún segir að flokkurinn fari fram með sömu áherslur og fyrir ári vegna þess að liðsmönnum Vinstri grænna finnist „lítið sem ekkert hafa miðað fram þegar kemur að uppbyggingu í skólamálum, heilbrigðiskerfinu og þegar kemur að því að leiðrétta stöðu öryrkja og aldraðra og verst settu hópanna,“ segir Katrín.

„Þessi umræða snýst bara um það hver ætlar að starfa með okkur og að okkar áherslum,“ segir Katrín þegar hún er spurð hvort Vinstri græn ætli sér að starfa með Sjálfstæðisflokkum að loknum kosningum.

„Við höfum sýnt það með okkar verkum að við erum ekki að fara í ríkisstjórn til að fara í valdastóla heldur til þess að hafa áhrif og það þarf ekkert að efast um okkar heilindi í því,“ segir Katrín að lokum.

Á fimmtudaginn verður annar fundur haldinn þar sem ákveðið verður hvort flokkurinn fari í uppstillingu eða forval en Katrín segir ljóst að þau þurfi að vinna mjög hratt.

Hér að neðan er mynd sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, tók í kvöld á fundinum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.