Skoðun

Hagsmunir sjúklinga eiga að ganga fyrir

Óttarr Proppé skrifar
Áhyggjur af einkarekstri í heilbrigðiskerfinu snúast mest um mögulegan ójöfnuð gagnvart sjúklingum. Eitt af grunngildum íslensks heilbrigðiskerfis er jafnt aðgengi að bestu þjónustu sem völ er á. Um þetta erum við Katrín Jakobsdóttir sammála.

Nýr liður í gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands gagnvart aðgerðum hjá konum sem greinast með BRCA-genið er í samræmi við þessi gildi. Hér eru einmitt hagsmunir sjúklinga í fyrirrúmi. Breytingin er í framhaldi af úrskurði Úrskurðarnefndar velferðarmála.

Þessi viðbót við gjaldskrá boðar ekki niðurskurð á fjárframlögum til annarrar heilbrigðisþjónustu. Slíkar ásakanir eru í besta falli tilraunir til að slá pólitískar keilur. Framlög til heilbrigðiskerfisins hafa aldrei verið hærri, tugum milljarða hærri en þegar Katrín sat í ríkisstjórn. Ég skal hins vegar fyrstur samsinna því að við þurfum að gera enn betur á næstu árum.

Það er ekkert nýtt að hægt sé að leita til lækna utan Landspítalans en innan ramma sjúkratrygginga, innan ramma jöfnuðar. Það felst því engin kerfisbreyting í þessari viðbót við gjaldskrá heldur kemur það þvert á móti fyrst og fremst sjúklingum til góða.

Öðrum spurningum Katrínar er auðsvarað. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að auka enn framlög til heilbrigðisþjónustu á næstu árum. Strax á næsta ári hefst bygging meðferðarkjarna Nýja Landspítalans. Það verður mesta framfaraskref í íslenskri heilbrigðisþjónustu um margra áratuga skeið. Nýtt sjúkrahótel við Landspítalann tekur til starfa á næsta ári og gjörbreytir aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur, sér í lagi utan af landi. Markmið heilbrigðiskerfisins verður áfram að veita bestu þjónustu sem völ er á með hagsmuni sjúklinga að leiðarljósi.

Það eru mér töluverð vonbrigði að sjá formann Vinstri-grænna snúa viðkvæmum og mikilvægum heilsufarsmálum upp í pólitískt keiluspil. Slíkir skotgrafaleikir stjórnmálanna sem draga athyglina frá kjarna máls eru einmitt eitt af því sem við í Bjartri framtíð höfum mikið gagnrýnt. Hættum því. Tölum saman.

 

Höfundur er heilbrigðisráðherra og formaður Bjartrar framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×