Körfubolti

Jón Arnór: Kannski barnalegt að hugsa þannig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Mynd/FIBA
Jón Arnór Stefánsson missti af nær öllum undirbúningi íslenska landsliðsins fyrir Evrópumótið í Helsinki og það er augljóst á frammistöðu hans í fyrstu tveimur leikjunum að þar fer ekki leikmaður í leikæfingu.

Meiðsli á nára sáu til þess að Jón Arnór var svona mikið frá og spilaði í raun aðeins einn undirbúningsleik af átta hjá íslenska liðinu.

Eftir stór töp á móti Grikkjum og Pólverjum þá er næsta á dagskrá leikur á móti Frökkum á morgun. En hvað þarf að gerast í þeim leik að mati Jóns Arnórs?

„Við þurfum að kýla þá fyrst, keyra á þá og spila svolítið viltan bolta. Við þurfum að gleyma okkur í einhverju mómenti sem mun vonandi skapast,“ sagði Jón Arnór eftir leikinn við Pólland í gær.

„Ég og fleiri erum kannski orðnir vanir því að ég hitti meira en það kemur. Það er kannski barnalegt að hugsa það að maður geti dottið beint inn í þetta og fara að hitta úr öllum skotunum sínum,“ sagði Jón Arnór. Hann hefur bara hitt úr 20 prósent skota sinna í fyrstu tveimur leikjunum.

„Hugarfarið hjá mér er þannig, Mér leið eins og ég myndi alltaf hitta úr næsta skoti og ég þarf bara að halda því áfram og reyna að gera mitt besta,“ sagði Jón Arnór.

Ísland hefur átt stúkuna í leikjunum og stuðningurinn hefur verið frábær en þeim mun meira svekkjandi er það fyrir strákana að standa sig ekki inn á vellinum. Jón Arnór reynir samt að horfa jákvætt fram á veginn.

„Það hlýtur að koma eitthvað móment. Þetta er aðallega leiðinlegt geta ekki staðið sig fyrir framan fólkið sitt. Það er leiðinlegt að tapa með svona stórum mun því það eru svo margir sem eru að styðja okkur,“ sagði Jón Arnór.

„Við megum samt ekki auk þá pressu á okkur að verða að standa okkur fyrir einhverja áhorfendur. Það fylgir því samt,“ sagði Jón Arnór og baráttan og keppnisskapið var til staðar hjá liðinu þótt að skotin færu ekki niður.

„Við lögðum okkur alla fram og það er ekki hægt að segja neitt annað. Þetta móment kemur því það er þarna einhversstaðar,“ sagði Jón Arnór.


Tengdar fréttir

Haukur Helgi: Þurfum að kýla þá fyrst

Haukur Helgi Pálsson, leikmaður íslenska landsliðsins í körfubolta, segir að í sannleika sagt sé íslenska liðið ekkert verra en Pólland. Ísland tapaði þó leik liðanna í dag með 30 stiga mun, 91-16.

Brynjar: Var látinn æfa sig í því að sitja á bekknum

Brynjar Þór Björnsson minnti á sig í lok leiksins á móti Póllandi þegar hann kom inn og setti niður tveir glæsilegar þriggja stiga körfur. Því miður komu þær alltof seint fyrir íslenska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×