Körfubolti

Elvar: Má ekkert klikka gegn svona liði

Elvar Már í barátunni í dag.
Elvar Már í barátunni í dag. Vísir/Getty
Elvar Már Friðriksson spilaði á köflum vel þegar Ísland tapaði fyrir Slóveníu, 102-75, á EM í körfubolta í dag. Elvar spilaði í sautján mínútur og skoraði sjö stig auk þess sem hann gaf þrjár stoðsendingar.

„Við byrjuðum þennan leik hrikalega vel og við vorum yfir í góðan part fyrri hálfleiks,“ sagði Elvar við Óskar Ófeig Jónsson, blaðamann Vísis, en Ísland leiddi eftir fyrsta leikhluta. „En svo um leið og maður hættir að hitta og gerir mistök gegn svona liðum þá refsa þeir um leið.“

Hann segir að menn eins og Goran Dragic og Luka Doncic séu í heimsklassa og það megi ekkert klikka gegn þeim. „Þeir refsa manni þá um leið. En við viljum auðvitað allir leggja okkar af mörkum og berjast fyrir landið okkar. Við viljum gera vel og ná sigri en þessar þjóðir eru bara betri en við núna, það verður að viðurkennast.“

Elvar Már nýtti sínar mínútur vel í dag og spilaði meira en í fyrri leikjum Íslands á mótinu. „Ég nýt mínar mínútur eins vel og ég get og legg mig fram eins og aðrir,“ sagði hann hógvær.

Tryggvi Snær Hlinason fær einnig sínar mínútur en stundum gengur illa að finna hann undir körfunni. Elvar sagði það stundum erfitt þegar hann er að berjast við stóra menn sjálfur undir körfunni.

„Eftir nokkur ár þá förum við að leita meira að Tryggva. Það má ekki gleyma því að hann er nýbyrjaður í körfubolta og er að standa sig hrikalega vel. Framtíðin er björt hjá honum og íslenska liðinu.“

Lokaleikur Íslands á mótinu verður gegn heimamönnum á morgun. „Það verður barátta. Við ætlum að leggja allt í sölurnar og ná sigri fyrir framan fimmtán þúsund manns. Það væri tilvalið.“

Viðtal sem Arnar Björnsson tók við Elvar Má má sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×