Körfubolti

Jón Arnór: Naut þess í botn að spila

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson hefur verið í lykilhlutverki með íslenska landsliðinu á EM í körfubolta þó svo að hann náði ekkert að æfa að ráði fyrir mótið.

Hann skoraði sex stig á þeim 26 mínútum sem hann spilaði í dag, gaf þrjár stoðsendingar og tók tvö fráköst, er Ísland tapaði fyrir Slóveníu, 102-75.

„Þetta var annað frábært lið sem við mættum hér í dag. Stemningin var góð í dag og var gaman að spila. Ég naut þess í botn að spila og stemningin í stúkunni æðisleg. Mér fannst við spila vel í leiknum en þetta var bara allt of erfitt,“ sagði Jón Arnór.

Hann sá ýmislegt jákvætt við leikinn, eins og þegar Ísland var 30 stigum undir í fjórða leikhluta en skoraði þá tíu stig í röð.

„Það var fallegt augnablik. Maður tekur þetta með sér inn í framtíðina og tekur svona augnablik með sér,“ sagði hann enn fremur.

Hann hrósaði liði Slóvena og segir erfitt að eiga við þá. „Þeir eru mjög hreyfanlegir í sókninni og með mikil sóknarvopn. Frakkarnir voru mjög góðir og ég veit ekki hvort liðið sé betra. Mér fannst þó meira til Frakkanna koma en Slóvenar eiga líka eftir að fara langt,“ segir hann.

Hann viðurkennir að hann sé orðinn mjög þreyttur. „Síðasti leikur tók mikið úr mér og ég var mjög þrettur í dag. Þetta var fjórði leikurinn á mjög fáum dögum en ég naut þess samt að spila. Mig langaði bara að halda áfram.“

Viðtal Arnars Björnssonar við Jón Arnór má sjá allt í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×