Körfubolti

Hlynur: Ég reyndi aðeins að hreinsa til í hausnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins, í leiknum við Slóveníu í dag.
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins, í leiknum við Slóveníu í dag. Mynd/FIBA
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska körfuboltalandsliðsins, skoraði 14 stig á móti Slóvenum og náði sinni bestu frammistöðu í sóknarleiknum á Evrópumótinu í Helsinki.

Hlynur nýtti 5 af 8 skotum sínum í leiknum og setti meðal annars niður tvær þriggja stiga körfur.

„Það var erfitt að vera minna með heldur en á móti Frökkum,“ sagði Hlynur en hann fann sig engan veginn í Frakkaleiknum og var bæði stiga- og frákastalaus fram eftir leik.

„Það er gaman að sjá nokkrar körfur fara niður því hitt er ekki skemmtilegt til lengdar þegar maður finnur ekkert grúv og byrjar aðeins að hika,“ segir Hlynur.

„Ég reyndi aðeins að hreinsa til í hausnum. Það er ekki hægt að hika á móti þessum körlum. Það er nógu erfitt að spila þetta miklu minni og orðinn oft eldri en þessi gaurar og ef maður er líka hikandi þá get ég gleymt því að vera með eins og á móti Frökkum,“ sagði Hlynur.

„Það var eins gott að láta bara vaða og ég vona að það geri það sem flestir í síðasta leiknum. Við verðum bara að láta allt flakka,“ sagði Hlynur.

„Við reynum alltaf eins og við mögulega getum. Það er bara mannlegt að einhvern tímann gefi maður einhvern tímann eftir og það koma einhver móment. Við reynum að hjálpa hverjum öðrum upp þegar það gerist. Við sjáum það ef einhverjir hausar fara niður þá reynum við endalaust að gefa í,“ sagði Hlynur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×