Skoðun

Nóg komið af subbuskap

Áslaug Friðriksdóttir skrifar
Sumarið er tíminn þar sem svo áþreifanlegt er hvað borginni er lítið og illa sinnt. Viðhald og hreinsun í borgarlandinu er einfaldlega til skammar. Því er auðskilið af hverju óánægju gætir meðal íbúa. Nágrannasveitarfélög Reykjavíkur sinna þessu sjálfsagða verkefni af alúð. Munurinn er stingandi.

Oft er fjallað um ímynd borga, eða jafnvel ímynd lands og þjóðar. Ímynd Íslands hefur til dæmis stundum verið talin vera „hrein og ósnert náttúra“. Talsvert er lagt í að vinna að alls kyns fagurri framtíðarsýn innan borgarkerfisins. Til dæmis fjallar framtíðarsýn ferðamálastefnu borgarinnar um að borgin verði eftirsóttur ferðamannastaður allt árið um kring. Hún verði þekkt sem áhugaverð menningarborg í nábýli við einstæða náttúru. Einnig að unnið skuli að því að sérstaða Reykjavíkur tengist nýtingu hreinnar orku, heits vatns og fyrsta flokks aðstöðu. Þetta er hins vegar ekki tilfinningin sem fólk fær þegar ferðast er um borgina.

Borg sem vel er viðhaldið er mun líklegri til þess að ná slíkum markmiðum heldur en borg þar sem heilu svæðin fá að drabbast niður, hreinsun gatna og grasslætti er illa sinnt, illgresi tekur yfir og margt virðist í niðurníðslu. Nauðsynlegt er að leggja vinnu í að hreinsa götur og torg eftir annasamar nætur og forða árrisulu fólki frá því að þurfa að stikla yfir vafasamar leifar næturgestanna. Er þetta ekki bara alveg augljóst?

Viðhorfskannanir hafa sýnt að borgarbúar eru ekki ánægðir með borgina miðað við íbúa annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Í stað þess þó að nýta sér þær niðurstöður ákvað meirihlutinn í Reykjavík að hætta þátttöku í samanburðarkönnuninni. Betra hefði verið að setja á fót enn frekari vinnu til að komast að því hvernig mætti bæta þá neikvæðu ímynd sem borgarbúar hafa af borginni. Ein góð leið væri örugglega að ganga til verks við hreinsun og viðhald þannig að borgarbúar sjái og finni að vel er hugsað um eigur þeirra og geti verið stoltir af borg sinni.

 

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×