Umfjöllun: Ísland - Úkraína 2-0 | Stórkostlegur seinni hálfleikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gylfi Þór fagnar af innlifun.
Gylfi Þór fagnar af innlifun. vísir/anton brink
Ísland kom sér í lykilstöðu í I-riðli undankeppni HM 2018 með 2-0 sigri á Úkraínu í kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði bæði mörk Íslands í síðari hálfleik, sem var einn sá besti sem Ísland hefur sýnt síðustu árin og er af mörgu að taka.

Sigurinn var verðskuldaður eftir að jafnræði hafi verið með liðunum í fyrri hálfleik. Íslendingar tóku öll völd á vellinum í þeim síðari og uppskáru eftir því. Gylfi Þór sýndi með frammistöðu sinni hversu öflugur hann er og dýrmætur hann er íslenska landsliðinu.

Heimir ákvað að stilla upp í 4-5-1 leikkerfið, rétt eins og hann gerði í Finnlandi. Brotthvarfið frá tveggja manna sóknarlínu hefur vakið athygli, ekki síst þar sem það hefur borið góðan árangur síðastliðin ár. Nú var hins vegar sú breyting gerð að Jón Daði Böðvarsson kom inn í liðið sem fremsti maður í stað Alfreðs Finnbogasonar. Þá var önnur breyting gerð á byrjunarliðinu, Sverrir Ingi Ingason kom inn í varnarlínuna í stað Kára Árnasonar.

Leikurinn byrjaði ekki gæfulega fyrir íslenska liðið þar sem strax á annarri mínútu gerði Emil Hallfreðsson sig sekan um að fara úr stöðu og þurfa að brjóta klunnalega af sér. Skoski dómari leiksins sýndi honum enga miskun og gaf honum áminningu.

Strákarnir áttu erfiðleika með að finna taktinn fyrstu mínúturnar og voru mikið að elta. Þó fékk Birkir Bjarnason dauðafæri í fyrstu almennilegu sóknaraðgerð Íslands á níundu mínútu en brást bogalistin fyrir framan markið eftir góðan undirbúning Jóns Daða.

Eftir þetta fór að ganga betur, strákarnir spiluðu ágætlega og losuðu sig oft vel undan pressu gestanna. Gylfi Þór fékk fínt færi á 22. mínútu en átti tvær skottilraunir í varnarmann með skömmu millibili.

Gestirnir sóttu í sig veðrið á lokakafla fyrri hálfleiks og var þar vinstri vængmaðurinn Yevhen Konoplyanka í stóru hlutverki en Birkir Már Sævarsson átti á köflum í basli með hann. Konoplyanka náði þó ekki að færa sér það í nyt.

Bestu færi gestanna komu eftir mistök okkar manna. Birkir Bjarnason bauð eitt sinn hættunni heim með slæmri sendingu og Sverrir Ingi með lélegri hreinsun. En ávallt stóð íslenska varnalínan áhlaup Úkraínumanna vel af sér og staðan því markalaus í hálfleik.

Emil var magnaður í seinni hálfleik.vísir/eyþór
Hafnfirðingarnir gerðu gæfumuninn

Síðari hálfleikurinn var þó ekki gamall þegar Ísland náði forystunni. Strákarnir byrjuðu af krafti og Emil, sem virtist á köflum mislagðir fætur í fyrri hálfleik, átti frábæran samleik við Gylfa í aðdraganda íslenska marksins.

Boltinn kom frá Hafnfirðingnum inn á teig þar sem Jóhann Berg reyndi að ná til boltans á undan Andriy Pyatov, markverði Úkraínu. Það tókst honum en eftir samstuð þeirra lá boltinn dauður fyrir Gylfa Þór sem þurfti lítið annað að gera en að ýta honum yfir línuna.

Úkraínumenn voru ósáttir við að fá ekki aukaspyrnu á Jóhann Berg en skoski dómarinn stóð fastur á sínu, sem betur fer.

Þessi byrjun á síðari hálfleik var aðeins forsmekkurinn af því sem koma skyldi. Íslendingar voru stórbrotnir næstu mínúturnar í leiknum og héldu bara áfram, í stað þess að reyna að verja 1-0 forystu. Á 64. mínútu átti Jóhann Berg skot í stöng eftir frábæra skyndisókn og undirbúning Gylfa Þórs.

Aðeins tveimur mínútum síðar var Ísland enn komið í sókn og í þetta sinn lauk henni með marki. Gylfi, eins og svo oft áður, hóf sóknaraðgerðina með sendingu út á Jóhann Berg sem átti frábæra rispu inn að teig. Hann gaf fastan bolta inn í teig, Emil lét hann fara og Jón Daði stillti honum upp fyrir Gylfa Þór sem kláraði sóknina sem hann hóf með því að setja boltinn í hægra hornið. Pyatov var í boltanum en varði hann í eigið mark. Stórkostleg sókn og verðskulduð 2-0 forysta staðreynd.

Jón Daði kom inn í byrjunarliðið og var frábær.vísir/anton
Ísland í lykilstöðu

Á lokamínútunum gerðu okkar menn sig líklega til að bæta í en hitt. Frábær viðbrögð eftir að hafa komist í yfirburðastöðu í leiknum og allt annað að sjá til leikmanna en í fyrri hálfleik, hvað þá í leiknum í Finnlandi á laugardag. Hafi einhver talið að íslenska landsliðið hafi með tapinu á laugardag stimplað sig út úr baráttunni um sæti á HM í Rússlandi, hafði sá hinn sami heldur betur rangt fyrir sér.

Strákarnir héldu haus lokamínútur leiksins og fengu nokkur færi til viðbótar til að bæta við. Björn Bergmann það langbesta er hann skallaði sendingu Gylfa Þórs yfir stuttu eftir að hann kom inn á sem varamaður.

Gylfi Þór átti eins og svo oft áður stórbrotinn leik í íslenska liðinu og var verðlaunaður með tveimur frábærum mörkum. Aron Einar var sömuleiðis frábær, eins og svo margir aðrir. Einna mest gladdi augað að sjá Emil Hallfreðsson eiga stórkostlegan síðari hálfleik og minna á sig.

Það stefnir í rafmagnaða spennu í síðustu tveimur umferðum undankeppninnar og ljóst að Íslendingar eru þar í lykilstöðu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira