Körfubolti

Hlynur: Finnar hafa tekið rosalegt stökk undanfarin ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins.
Hlynur Bæringsson, fyrirliði íslenska landsliðsins. Mynd/FIBA
Íslenska landsliðið hefur spilað oftar við Finna en flestar hinar þjóðirnar á Eurobasket. Finnar voru lengi bara rétt á undan okkur en á síðasta áratug hafa þeir tekið mikið stökk.

Landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson talaði vel um Finnana í viðtali eftir leikinn á móti Slóveníu í gær.

„Þeir hafa tekið rosalegt stökk undanfarin ár. Þeirra prógram er alveg til fyrirmyndar að öllu leiti,“ segir Hlynur.

Hann er mjög hrifinn af því sem Finnar hafa gert til að styrkja stöðu sína meðal sterkustu körfuboltaþjóða Evrópu.

„Hvernig þeir eru þjálfaðir og líkamlegt atgerfi leikmanna er mjög gott. Þeir spila á miklu tempói og eru með hraðar skiptingar inn og út. Þeir eru alltaf á fullu og eru agaðir,“ segir Hlynur.

„Þeir eru nær okkur heldur en til dæmis Grikkir en eru samt fyrir ofan okkur á listanum,“ segir Hlynur.

Finnar hafa nú fengið inn nýja súperstjörnu sem er Lauri Markkanen sem sló í gegn í bandaríska háskólaboltanum síðasta vetur og mun spila með Chicago Bulls á komandi tímabili.

„Markkanen á örugglega eftir að setja eitthvað í grillið á okkur. Það er betra að við að glíma við svoleiðis leikmenn heldur en einhverja durga. Svona mikill skotmaður, hann annaðhvort hittir eða hittir ekki,“ segir Hlynur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×