Viðskipti innlent

Segir sjaldnast erfitt að finna kaupanda að álverum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir álmarkaðinn vera að taka við sér.
Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir álmarkaðinn vera að taka við sér.
„Það gerist með reglubundnum hætti í heiminum að álver gangi kaupum og sölum og það hefur sjaldnast verið erfitt að finna kaupendur,“ segir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls - Samtaka álframleiðenda á Íslandi. „Það er bjartara yfir álmörkuðum og hlutabréf í álverum hafa farið hækkandi. Flest álver á vesturlöndum eru á hlutabréfamarkaði og eru í svona almennri eigu og það sýnir tiltrú markaðarins að þau fari hækkandi í verði.“

Greint var frá því í kvöldfréttum Stöðvar Tvö í gærkvöldi að Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumvík, tilkynnti starfsmönnum fyrirtækinsins að Rio Tinto Alcan hefði hug á að selja álverið. Reksturinn hefur verið erfiður undanfarin ár sökum lágs álverðs en hinsvegar er hann byrjaður taka við sér þar sem álverð fari hækkandi.

„Maður finnur að það er meiri tiltrúa á markaðnum,“ segir Pétur. „Ástæðan er kannski fyrst og fremst sú að eftirspurn hefur aukist ár frá ári um fimm til sex prósent.“

Hann segir það spila stórt hlutverk að sífellt meira af áli sé notað í bílaframleiðslu. Það sé bæði gert til að mæta umhverfiskröfum stjórnvalda og til að létta bílaflotann. Einnig spilar það hlutverk að Kínverjar eru að draga úr framleiðslu sinni til að mæta skuldbindingum í loftslagsmálum en álver í Kína eru knúin kolum.

„Hvað framboðshliðina varðar þá hafa kínversk stjórnvöld lýst því yfir að þau hyggist draga úr framleiðslu á stórum svæðum í Kína. Það hefur þá kannski stuðlað að meira jafnvægi í álframleiðslu þar . Þar hefur verið mestur vöxtur á undanförnum árum og í raun hefur álframleiðsla vaxið þar umfram eftirspurn,“ segir Pétur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×