Körfubolti

Gasol orðinn stigahæstur í sögu EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pau Gasol hefur skorað 1111 stig á EM í körfubolta.
Pau Gasol hefur skorað 1111 stig á EM í körfubolta. vísir/epa

Pau Gasol er orðinn stigahæsti leikmaður í sögu Evrópumótsins í körfubolta.

Þegar Gasol setti niður þrist um miðjan 2. leikhluta í sigri Spánar á Ungverjalandi í dag tók hann fram úr Tony Parker á stigalistanum.Parker skoraði 1104 stig fyrir Frakkland á sínum tíma. Gasol er núna kominn með 1111 stig.

Gasol var í 3. sæti stigalistans fyrir EM í ár en í riðlakeppninni tók hann bæði fram úr Parker og Dirk Nowitzki. Grikkinn Nikos Galis er í 4. sæti stigalistans. Galis er hins vegar efstur á listanum yfir þá leikmenn sem hafa skorað flest stig að meðaltali í leik á EM (31,2 stig).

Gasol er að spila á sínu sjöunda Evrópumóti. Hann hefur þrisvar sinnum orðið Evrópumeistari með spænska landsliðinu, tvisvar sinnum unnið til silfurverðlauna og einu sinni brons. Spánverjar eru ríkjandi meistarar og hafa því titil að verja.

Gasol var valinn besti leikmaður EM 2009 og 2015 og þá hefur hann þrívegis verið stigakóngur mótsins.

Gasol og félagar mæta Tyrklandi í 16-liða úrslitum EM á sunnudaginn.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira