Erlent

Ríkisstjóri Flórída: Allir íbúar ríkisins búi sig undir að þurfa að yfirgefa heimili sín

Atli Ísleifsson skrifar
Rick Scott ræddi við fjölmiðla nú í hádeginu.
Rick Scott ræddi við fjölmiðla nú í hádeginu. Vísir/AFP
Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, segir að allir íbúar ríkissins verði að vera undir það búnir að þurfa að yfirgefa heimili sín vegna yfirvofandi komu fellibylsins Irmu.

Þetta sagði ríkisstjórinn nú í hádeginu, en um 20 milljónir manna búa í ríkinu. Búist er við að Irma nái strönd Flórída á sunnudaginn.

Scott sagði fellibylinn vera stærri að umfangi en ríkið sjálft og því þurfi íbúar á bæði vestur- og austurströndinni að vera reiðubúnir að flýja. Eins og staðan er nú er Irma líklegri til að valda meiri eyðileggingu en fellibylurinn Andrew sem herjaði á ríkið í ágúst 1992.

Irma er nú flokkaður sem fjórða stigs fellibylur og hefur í dag gengið yfir hafsvæði norður af Kúbu og stefnir á Flórída.

Yfirvöld á Flórída hafa þegar beint þeim fyrirmælum til um 500 þúsund íbúa að yfirgefa heimili sín vegna komu Irmu.

Brock Long, yfirmaður almannavarnastofnunarinnar bandarísku, FEMA, sagði í morgun að Irma muni „rústa“ annað hvort Flórída eða nágrannaríkjunum þegar fellibylurinn gengur þar yfir.

Sagði Long að hlutar af Flórída verði án rafmagns í nokkra daga og að rúmlega 100 þúsund manns muni þurfa að hafast við í neyðarskýlum.


Tengdar fréttir

Irma ógnar allt að 26 milljónum manna

Fimmta stigs fellibylur veldur gífurlegu tjóni á eyjum Karíbahafs. Barbúda er sögð óbyggileg og Saint-Martin næstum öll í rúst. Bandaríkjamenn búa sig undir komu Irmu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×