Lífið

Stofnaði Facebook-hóp um þrif: "Mikilvægt að ákveða ekki að eitthvað efni virki á allt“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sigrún er þekkt fyrir góð ráð og flott skipulag þegar kemur að þrifum.
Sigrún er þekkt fyrir góð ráð og flott skipulag þegar kemur að þrifum. Sigrún Sigurpálsdóttir
„Það vinsælasta á mínu snappi er allt sem kemur að þrifum. Langflestar spurningar sem ég fæ tengjast þrifum. Ég fæ spurningar um hvernig á að ná blettum úr fötum og hvernig á að þrífa skó, sófa og fleira,“ segir Sigrún Sigurpálsdóttir en hún opnaði fyrir viku hópin Þrifatips á Facebook. Sigrún er vinsæl á Snapchat og sýnir þar mikið af sniðugum ráðum tengdum þrifum.

Sigrún segir á að á Facebook séu íslenskir hópar á borð við Beautytips og Mæðratips en henni fannst vanta hóp sem væri tileinkaður heimilisþrifum. Nú þegar eru meira en þrjú þúsund meðlimir í hópnum og hann stækkar ört.



„Ég ákvað bara að stofna þennan hóp þannig að fólk gæti spurt þarna inni. Það eru fleiri konur sem luma á góðum ráðum svo það er ekki bara ég sem er að svara og deila aðferðum. Þetta gengur hraðar svona heldur en þegar fólk þarf að bíða eftir að ég svari skilaboðum. Það er þvílíkt mikil virkni þarna inni og þetta er ótrúlega skemmtilegur hópur.“

Fær sömu spurningarnar aftur og aftur

Sigrún er eins og er í fæðingarorlofi en hún eignaðist stúlku fyrir tímann eftir 34 vikna meðgöngu. Stúlkan dafnar mjög vel.

„Það fer að koma að því að ég fari að blogga en það kemur bara þegar ég hef meiri tíma í það. Núna er snappið og þessi hópur alveg nóg,“ svarar Sigrún aðspurð um það hvort það hún ætli að byrja að skrifa bloggfærslur aftur. 

„Ég fæ mjög mikið af sömu spurningunum svo það er ótrúlega þægilegt að þarna er hægt að fara inn í hópinn og leita og þá færðu upp umræður ef viðfangsefnið hefur verið rætt áður,“

Algengustu spurningarnar sem Sigrún fær eru um það hvernig sé best að þrífa hvíta skó og íþróttaskó almennt. „Einnig um bletti í fötum og annars staðar eins og blóðblettir, matarblettir og þess háttar.“

Sigrún er með í kringum 15.000 fylgjendur sem horfa á Snapchat myndbönd hennar daglega. Margir fylgja ráðum hennar þegar kemur að þrifum og vörur sem hún segir frá seljast oft jafnvel upp. Þar á meðal eru ilmkúlur í þvottavélar og það nýjasta er Pinkstuff sem notað er við þrif. Mynd af efninu er áberandi efst á Facebook síðu Þrifatips hópsins.

„Ég nota Pinkstuff mest í að þrífa sturtuglerið hjá mér, baðkarið og alla vaska í húsinu. Svo er þetta snilld í að þrífa skó og margt fleira.“

Sigrún fær gríðarlega mikið af skilaboð frá sínum fylgjendum á SnapchatSigrún Sigurpálsdóttir

Skildi eftir málningarslóð um allt húsið

Þegar ég opnaði snappið mitt þá byrjaði þetta þannig að þegar ég opnaði snappið mitt þá var ég með málningu um allt húsið og var að þrífa það. Sonur minn helti niður málningu á allt gólfið. Ég byrjaði að fá spurningar um það hvernig ég þreif það.“

Sonur Sigrúnar hafði sett málningarfötu ofan í taukörfu úr IKEA og dró hana um allt húsið. Sigrúnu tókst sem betur fer að þrífa alla málninguna.

„Þetta gerðist á smástundu á meðan ég var að sinna litla bróður hans, það var slóð um allt.“



Sigrún segir að hún sýni aðeins frá sínu daglega lífi og að þar séu þrifin ofarlega á lista.



„Eftir að ég byrjaði að búa er þetta stór hluti af mínu daglega lífi og ég hef rosalega gaman af því að þrífa. Ég fór að sjá að það er ofsalega mikill áhugi fyrir því að sjá allskonar þrif.“



Það er alltaf nóg að gera á heimilinu hjá Sigrúnu en hún er með fjögur börn frá aldrinum tveggja mánaða til 14 ára. Aðspurð að því hversu miklum tíma hún eyddi í þrif segir Sigrún að hún geri sér ekki alveg grein fyrir því. „Ég þríf eitthvað alla daga. Ég er með fjögur börn þannig að það virkar aldrei fyrir mig að ætla að taka einhvern einn dag í að þrífa. Ég er þrífandi í allavega klukkutíma, plús mínus, á hverjum einasta degi. Maður þrífur þegar maður hefur tíma, annars er ég að sinna börnum.“

Í Facebook-hópnum þrifatips getur fólk sett inn fyrirspurnir varðandi allt tengt þrifumSigrún Sigurpálsdóttir

Mikilvægt að prófa fyrst á litlu svæði

Í hópnum er ekki aðeins verið að segja frá sniðugum lausnum heldur líka mistökum sem ætti að forðast.



„Það er ótrúlega mikilvægt að ákveða ekki að eitthvað efni virki á allt. Það sem ég geri með efni er að ég prófa það alltaf fyrst á litlum bletti áður en ég þríf heilan flöt með því. Svo les ég mér líka mikið til áður en ég nota eitthvað í fyrsta skipti. Það er svo mikilvægt með allt sem þú notar að lesa vel umbúðir og leiðbeiningar.“

Sigrún er fjögurra barna móðir og er í fæðingarorlofi í augnablikinuSigrún Sigurpálsdóttir
Í umræðu í Facebook hópnum um þrif með ediki sagði Sigrún sjálf frá því að hún hefði skemmt innréttingu með því að þrífa hana með ediksblöndu.



„Eins og með edikið þá eru sumir sem halda að það megi nota það á allt af því að það er notað í matargerð. En það er svo mikil sýra í þessu að þetta má alls ekki fara á allt. Ég blandaði ediki og vatni í brúsa á innréttingu og fékk bara svona tauma niður hana eins og sýran hefði eytt litnum, ég losna ekkert við það.“



Hún þrífur nú miklu meira með spritti en ediki, eins og til dæmis á rúður. „Ég get notað það á allar innréttingar. Það er ekkert til að sótthreinsa heldur virðist virknin vera það góð að hún leysir upp öll óhreinindi. Fyrir mig er nóg að nota 1/3 af spritti á móti 2/3 af vatni.“

Sigrún segir að flestir meðlimir í Þrifatips hópnum séu mæður en allir sem hafi áhuga á að fá ráð eða gefa ráð tengd þrifum séu samt velkomnir.

„Þessi hópur er opinn fyrir alla og það eru alveg karlmenn þarna inni sem er bara alveg frábært. Þeir hafa alveg sumir hverjir áhuga á þrifum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×