Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Valur - Breiðablik 1-0 | Valsmenn fjórum stigum frá titlinum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Kristinn Ingi skoraði sigurmarkið.
Kristinn Ingi skoraði sigurmarkið. vísir/ernir
Valsmenn stigu stórt skref í átt að Íslandsmeistaratitlinum með 1-0 sigri á Blikum á Valsvellinum í kvöld en Valsmenn þurfa aðeins fjögur stig úr síðustu fjórum umferðunum til að tryggja sér titilinn.

Kristinn Ingi Halldórsson skoraði eina mark leiksins í kvöld en Blikar fengu alveg sín færi til að skora en allt kom fyrir ekki hjá Kópavogsliðinu.

Af hverju vann Valur?

Liðið var ekkert endilega betra í dag en það langaði meira í þennan sigur. Blikar fengu sín færi en nýttu þau mjög illa og það vantaði rosalega mikið upp á að afgreiða sóknirnar þeirra. Kristinn Ingi Halldórsson er alltaf svo duglegur.

Þetta er sennilega duglegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar og hann uppskar í kvöld. Kristinn hefur ekki fundið markið í sumar oft en þetta mark sem hann gerði í kvöld er það allra mikilvægasta sem Valur skorar á þessu tímabili. Það skilur í raun liðin að, dugnaður og eljusemi Kristins Inga.

Þessir stóðu upp úr:

Varnarlína Vals var flott í kvöld eins og alltaf Þetta var mikill barningur þessi leikur og sennilega var Eiður Aron Sigurbjörnsson besti maður vallarins. En þetta mark Kristins var heldur betur mikilvægt einnig og hann stendur svolítið upp úr eftir kvöldið.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var í raun ekkert spes. Það var ískalt á Valsvellinum í kvöld og blés töluvert. Þetta voru erfiðar aðstæður og fer leikurinn aldrei í sögubækurnar fyrir mikla skemmtun. Blikar fengu sín færi og þeir verða hreinlega að nýta þau miklu miklu miklu betur.

Hvað gerist næst?

Valsmenn fara norður til Akureyrar og mæta KA og ef úrslitin verða góð fyrir þá í þeim leik og öðrum, er möguleiki að liðið verði Íslandsmeistari eftir næstu umferð.  Blikar mæta KR-inum í miklum Evrópu-sætisslag.

Maður leiksins: Eiður Aron Sigurbjörnsson en allar einkunnir leikmanna má sjá ef ýtt er á Liðin

Markaleysið hefur pirrað Kristinn Inga: Ótrúleg tilfinning að sjá þennan í netinu„Þetta var góð tilfinning að sjá boltann í netinu. Við þurftum að hafa rosalega mikið fyrir þessum sigri,“ segir Kristinn Ingi Halldórsson, hetja Valsmanna, eftir leikinn í kvöld. 

„Þetta hafðist bara sem betur fer og það var ótrúlega gaman að skora. Það var rosalega kalt í kvöld og mikið rok. Við vörðumst mjög vel og gáfum ekki mörg færi á okkur. Það hefur sennilega ekki verið gaman að horfa á þennan leik en okkur er alvega saman, við unnum.“

Kristinn Ingi hefur nú skorað tvö mörk í deildinni í sumar.

„Þetta hafa verið fá mörk og þetta hefur verið að fara í taugarnar á mér, en að sjá þennan í netinu var ótrúlega góð tilfinning. Þetta er ekki búið samt sem áður og við verðum að halda áfram. Sækja þennan titil eins fljótt og við getum.“

Ólafur: Sérfræðingar mega segja að þetta sé komið, við vitum betur„Ég er mjög sáttur við þennan leik. Blikarnir voru helvíti hættulegir í fyrri hálfleiknum og fengu sín færi,“ segir Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir leikinn.

„Við vorum heppnir að sleppa inn hálfleikinn með stöðuna 0-0 en í þeim síðari vorum við mikið betra liðið og áttum sigurinn skilið.“

Ólafur segir að liðið hafi kunnað það í ár að vera þolinmótt og leikmenn Vals bíða alltaf eftir tækifærinu.

„Við fáum alltaf færi í öllum leikjum og strákarnir vita það. Okkar mörk koma frá mörgum mönnum og í kvöld skoraði Kristinn Inga og hann var frábær í kvöld.“

Ólafur segir að titillinn sem ekki kominn í höfn.

„Ég er bara ánægður að þið sérfræðingarnir talið svona, mér finnst það fínt. Við vitum alveg að þetta er ekki komið og ætlum að fara til Akureyrar og spila næsta leik. Það er gott að koma til Akureyrar og mér líður vel þar,“ segir Ólafur sem var þjálfari FH árið 2004 þegar liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn gegn KA fyrir norðan.

Milos: Náum ekki Evrópusæti ef við erum ekki með 11 menn inni á með sjálftraust„Ég get lítið sagt eftir þennan leik. Þeir eru bara með aðeins meiri gæði en við og unnu því leikinn,“ segir Milos Milojevic, þjálfari Blika, eftir leikinn í kvöld. Hann segir að það vanti greinilega sjálfstraust í lið Blika.

„Það sást í leiknum í kvöld og ég bara tek það á mig eins og ég hef alltaf gert. Við áttum að nýta okkar færi betur og alls ekki leyfi svona manni eins og Einari Karli að skjóta fyrir utan sem gaf þeim markið.“

Eins og áður segir þá tekur Milos tapið á sig. Hann var því spurður hvort hann hefði átt að stilla liðinu öðruvísi upp?

„Ég ætti auðvitað bara að vera með Diego Costa í liðinu og láta hann skora þrjú mörk. Alltaf þegar mín lið tapa þá tek ég það á mig. Það er mun auðveldara að skamma mig en leikmennina.“

Hann segir að liðið hafi í raun bara sofnað eitt augnablik og það skilji liðin að.

„Alltaf þegar við erum að fara koma okkur inn í þennan pakka uppi á topp þá feilum við. Þetta er bara svona þroskaferli hjá liðinu,“ segir Milos og endar á því að segja að Blikar geti ekki náð Evrópusæti ef það eru ekki 11 menn inni á vellinum í einu með sjálfstraust.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira