Erlent

Ellefu kjarnorkuver og hundruð sjúkrahúsa á vegi Irmu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Umferðin frá hættusvæðum er nánast eingöngu í eina átt.
Umferðin frá hættusvæðum er nánast eingöngu í eina átt. Vísir/afp
Yfirvöld í Flórída hafa skipað minnst 5,6 milljónum íbúa í ríkinu að yfirgefa heimili sín og dvalarstaði áður en fellibylurinn Irma skellur á ríkinu. Búist er við að Irma muni valda gríðarlegu tjóni þar.

Irma hefur á ný náð hæsta styrk fellibylja, styrk fimm, en styrkurinn hafði um tíma farið niður í fjóra. Irma fer nú yfir Kúbu en reiknað er með að fellibylurinn nái landi á Flórída seint í kvöld eða snemma á morgun.

Irma hefur þegar valdið miklum skaða á eyjum Karabíska hafsins en talið er að minnst nítján hafi látist og fjölmörg heimili gjöreyðilagst.

Eins og sjá má er Irma gríðarstór. Sjá má Flórída-skaga efst í vinstra horninu.Vísir/AFP
Rick Scott, ríkisstjóri Flórída, hefur gefið út að allir íbúar Flórída, um 21 milljón manns, ættu að vera reiðubúnir að yfirgefa heimili sín. Reiknað er með að Irma muni færa sig upp eftir öllum Flórída-skaganum.

Reiknað er með mikilli eyðileggingu og á vef 538 má sjá að alls eru ellefu kjarnorkuver, hundruð sjúkrahúsa og þó nokkir losunarstaðir spilliefna á þeim svæðum sem talið er líklegt að Irma muni ná til.

Bandaríska veðurstofan greindi frá því í gær að líklega yrði meðalvindhraði Irmu um 74 metrar á sekúndu þegar stormurinn skellur að öllum líkindum á Flórída. Greindi veðurstofan frá því í gær að vegna Irmu gæti suðurhluti Flórída orðið óbyggilegur í vikur, jafnvel mánuði.

Hér að neðan má sjá gagnvirkt kort af Irmu.


Tengdar fréttir

Vara við gjöreyðileggingu í Flórídaríki

Irma gekk yfir fleiri Karíbahafseyjar í gær. Bandaríkjamenn búa sig nú undir fellibylinn sem flokkast nú á fjórða stigi, ekki fimmta. Ríkisstjóri Flórída segir afar mikilvægt að fólk yfirgefi svæði sem á að rýma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×