Innlent

Réttindi flugfarþega: „Fyrsta skrefið er að senda kröfu á flugfélagið“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Íslenskur farþegi birti þessa mynd af sofandi fólki í flugstöðinni á Tenerife um helgina.
Íslenskur farþegi birti þessa mynd af sofandi fólki í flugstöðinni á Tenerife um helgina. Erna Karen Stefánsdóttir
Neytendastofa fær aukinn fjölda af kvörtunum tengdum töfum og aflýsingum á flugi. Þetta kom fram í viðtali við Ívar Halldórsson lögfræðing hjá Neytendasamtökunum í Reykjavík síðdegis fyrr í dag.

„Hvort að það er út af því að það er alltaf stöðug aukning í flugsamgöngum eða hvað það veit maður ekki. En við finnum það bæði í erindum sem við fáum frá Neytendasamtökunum og þeim málum sem við fáum í gegnum Evrópsku neytendaaðstoðina sem við hýsum, að það er nokkur aukning á þessu sviði,“ segir Ívar.

Réttindin fara eftir vegalengd

„Vissulega er það hrikalegt þegar farþegar lenda í svona gífurlegum töfum. Það er í gildi Evrópureglugerð um réttindi flugfarþega sem að kveður í rauninni á um ýmis lágmarksréttindi sem að flugfarþegar eiga, þegar kemur að seinkunum um einhvern ákveðinn tíma eða aflýsingu.“

Ívar segir að reglugerðin sé nokkuð góð. Réttindi flugfarþegana snúa að aðstoð, endurgreiðslu og mögulegar skaðabætur.

„Í reglugerðinni er flugum skipt í þrennt. Það fer í rauninni eftir vegalengd flugsins hvaða réttindi koma til skoðunar hverju sinni,“ útskýrir Ívar. Flokkarnir þrír eru flug sem eru 1500 kílómetrar og minna, flug sem eru 1500 til 3500 kílómetrar og svo flugin sem eru lengri en það.

 

Fyrsta skrefið er að senda kröfu

Eins og fjallað var um á Vísi í gær þurftu margir farþegar að dvelja í von og óvon á flugvöllum svo klukkustundum skiptir. Flugfélagið var harðlega gagnrýnt fyrir ítrekaðar seinkanir og lélega upplýsingagjöf.

Ívar segir að tafir Primera Air um helgina falla undir slík réttindi. „Fyrsta skrefið er að senda kröfu á flugfélagið, fara fram á þessar bætur. Svo ef að flugfélagið hafnar eða eitthvað svoleiðis þá bara hvet ég farþega til þess að hafa samband við okkur hjá Neytendasamtökunum og við förum yfir málið með þeim.“

Þó að ferðin sé bókuð í gegnum ferðaskrifstofu þarf fólk að leita fyrst til flugfélagsins með sínar kröfur.



Viðtalið má heyra í heild sinni hér að neðan:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×