Skoðun

Úrelt sjónarmið

Bryndís Bjarnadóttir skrifar
Formaður Heimdallar skrifar grein til varnar úreltum sjónarmiðum í pólitísku flokksstarfi. Það vekur furðu að fulltrúi ungu kynslóðar stjórnmálanna skuli gera það. Þráðurinn í grein hans er sá að ástæða þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki náð vopnum sínum í höfuðborginni sé að þeim þúsundum og aftur þúsundum sjálfstæðismanna sem hafa komið að vali á framboðslista Sjálfstæðisflokksins hafi orðið hrikalega á og valið vitlaust fólk á framboðslista flokksins.

Upplegg formannsins er að með því að útiloka aðkomu hins almenna flokksmanna að uppstillingu annarra sæta en forystumannsins sé líklegt að kosningar vinnist. Fámennur hópur úr innra starfi flokksins sé mun líklegri til að velja rétt fólk heldur en almennennir flokksmenn. Þessi málflutningur vekur furðu. Það er sérstaklega áhugavert að hann telur upp allar raddirnar sem fámenni hópurinn ætli að tryggja framgöngu á framboðslistanum. Þar er talað um ýmsar raddir, raddir kvenna, karla, raddir ungra og eldri sem og mismunandi hverfa. Allt er þetta góðra gjalda vert og þegar litið er til undanfarinna ára og áratuga verður ekki annað sagt en að frambjóðendur sjálfstæðisflokksins hafi endurspeglað ágætlega þessi sjónarmið. En það er ein rödd sem formaður Heimdallar sleppir að nefna. Hann sleppir að nefna rödd almennra sjálfstæðismanna í borginni, rödd sjálfstæðisstefnunnar. Almennir sjálfstæðismenn koma nefnilega mjög takmarkað að málum, skoðunum þeirra og mati á einstaklingum einungis hleypt að vali á leiðtoganum en aðrir verða valdir af fámennum hóp.

Það er áhyggjuefni að formaður Heimdallar, fulltrúi ungu kynslóðarinnar í Sjálfstæðisflokknum skuli ekki sjá hætturnar við að horfið sé til gamalla vinnubragða þar sem lýðræðið er minna, handstýringin meiri og aðkoma hins almenna flokksmanns sem hefur hingað til verið hin eina sanna samviska flokksins gerð nánast að engu.

Höfundur er stjórnarmaður SUS og fyrrverandi stjórnarmaður Heimdallar.




Skoðun

Sjá meira


×