Lífið

Varðveita minningu Birnu

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Silla móðir Birnu heitinnar og María æskuvinkona hennar ræða málin.
Silla móðir Birnu heitinnar og María æskuvinkona hennar ræða málin. Visir/Ernir
Sr. Vigfús Bjarni Albertsson starfar sem sjúkrahúsprestur á Landspítalanum. Hann er landskunnur frá því hann tók ákvörðun um að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands á síðasta ári. Færri vita að hann starfaði um árabil sem lögreglumaður með námi. Í starfi lögreglumannsins fann hann fyrir löngun til að þjóna fólki í erfiðum aðstæðum. Verða því að gagni. Hann fylgdi löngun sinni og tók M.th.-próf í sálgæslu frá Luther Seminary í St. Paul í Bandaríkjunum. Hann hefur frá því hann hóf störf sem sjúkrahúsprestur árið 2005 öðlast víðtæka reynslu af því að starfa með foreldrum sem misst hafa barn.

„Ég fékk símhringingu frá lögreglustjóranum um kvöld í vetur. Þá var hafin leit að Birnu heitinni og ég beðinn um að hjálpa fjölskyldu hennar í þessum erfiðu aðstæðum. Ég hef fylgt fjölskyldunni síðan þá,“ segir Vigfús. „Lögreglan finnst mér hafa staðið sig vel, verklagið einkenndist af auðmýkt gagnvart aðstandendum. Ég fann fyrir mikilli hlýju og getu til að hlusta.“

Í vikunni sendi hann frá sér orðsendingu á Facebook að beiðni foreldra Birnu. Vigfús minnti á að sumar lýsingar sem fram koma í meðferð máls Birnu væru þess eðlis að þær ættu ekki erindi við almenning. Þær yllu óbærilegum sársauka og sköpuðu hryllilegar myndir í hugskoti fjölskyldumeðlima. Vigfús kom þeirri ósk foreldranna áleiðis að fjölmiðlar fari gætilega í lýsingum sínum.

„Bataferli í kringum áföll af mannavöldum eru erfið. Ég held að fólk skilji vel þessa beiðni, þau eru ekki að biðja um að atvikum sé leynt eða því sleppt að fjalla um þau. Þau biðja einfaldlega um að þær upplýsingar sem eigi alls ekki erindi við almenning rati ekki í fréttir. Fjölmiðlar hafa frá upphafi staðið sig ákaflega vel og fjölskyldan kann að meta starf þeirra í heildina. Það eru margar hliðar á þessu og það sem er mikilvægt er að frá byrjun upplifðu ástvinir Birnu samhug og stuðning þjóðarinnar.

Fín lína

Fjölmiðlar og lögregla unnu ákaflega vel saman að því að veita upplýsingar um málið. Birna varð stúlkan okkar. Skyldu fjölmiðla sinntu blaðamenn í heildina vel. Við verðum samt öll að geta tekið gagnrýni. Það sem er erfitt núna er að heyra grafískar lýsingar sem eru aukaatriði málsins og atvika en auka mjög á hrylling ástvina sem ímynda sér síðustu stundir dóttur sinnar. Þetta er fín lína sem er auðvelt að fara yfir,“ segir Vigfús. „Það er bæði mikilvægt að horfast í augu við illskuna. Fjalla um hana og hafa hugrekki til að sýna kærleika. Að gera ekki meira en okkur ber skylda til. Að særa ekki að óþörfu. Við þurfum öll að æfa okkur í þessu,“ segir Vigfús.

„Álagið er mikið núna og sérstaklega þegar upplýsingar koma fram við málsmeðferðina sem fjölskyldan heyrir í fyrsta sinn,“ bætir hann við.

Vigfús nefnir að bataferli í kringum áföll af mannavöldum séu erfið. „Það er einhver manneskja sem er völd að missinum og sorginni og því fylgir tilfinning að hafa ekki stjórn. Það er virkilega erfitt.“

Starf Vigfúsar í aðstæðum sem þessum er víðtækt. „Ég hjálpa fólki að vera saman í svona erfiðum aðstæðum. Að vinna með þá þætti sem geta hjálpað fjölskyldunni. Við erum ólíkir einstaklingar og þegar áföll verða þá bregðumst við misjafnlega við. Þegar áfall verður þá þarf að fara fram markviss vinna í að halda fjölskyldukerfinu saman.“

Missir aldrei vonina

Vigfús starfaði sem lögreglumaður með námi í fimm ár frá árinu 1997.

„Ég eignaðist marga góða vini í lögreglunni sem vinna við krefjandi aðstæður, þurfa bæði að huga að sálgæslu og viðbrögðum. Starfið hvatti mig til að fara og læra meira um sorgarferlið. Ég hélt því til framhaldsnáms í Bandaríkjunum og hóf störf á Landspítalanum eftir námið. Starfið felst í viðtölum á daginn og það er mjög mikið sótt í þessa þjónustu. Við erum átta talsins sem störfum á Landspítalanum. Við erum líka til taks á næturnar og skiptumst á vöktum. Svo fylgjum við eftir fólki og fjölskyldum, það er mjög misjafnt til hversu langs tíma. Sorgarferlið og bataferlið sem slíkt er mjög misjafnt. Þetta eru einstaklingar sem eru að fá erfið tíðindi, takast á við eigin dauða eða sinna nánustu. Makar, börn og foreldrar. Þetta geta verið óvæntir atburðir eins og slys, veikindi eða glæpamál. Ég hitti fólk grímulaust að takast á við stærstu verkefni lífsins,“ segir Vigfús sem segir að í slíkum aðstæðum þurfi sjálfskoðunin að vera ítarleg.

„Ég er í návígi við manneskjuna og maður lærir mikið um sjálfan sig og mannsandann. Hvers hann er megnugur. Ég dáist að fjölskyldu Birnu, foreldrum hennar og bróður. Þau hafa sýnt svo mikinn styrk. Ég hef verið mikið í kringum foreldra sem hafa misst börn sín. Það er það allra erfiðasta að takast á við í þessu starfi. Þjáning þeirra snertir mig. Maður kynnist fólki mjög náið. Um leið og ég verð dofinn, þá get ég ekki lengur hjálpað. Ég vona að það verði aldrei svo,“ segir Vigfús.

Hann hefur aldrei misst vonina eða trúna á að fólk geti komist yfir áföll eins og að missa barn. „Fólk er svo stórkostlegt, það hefur svo mikla vaxtarmöguleika. Í þessu starfi hef ég séð fólk vaxa og batna. Maður fær svo jákvæða sýn á mannskepnuna og mátt kærleikans.“

Hann gætir að sjálfum sér í erfiðu starfi. „Maður þarf að vera vakandi fyrir sjálfum sér. Ég er mikið náttúrubarn og sæki í náttúruna. Ég reyni að varðveita það einfalda í lífinu. Það er mikilvægt. Í öllu því sem er erfitt þá er mikilvægt að maður nái að tengjast sjálfum sér, nái svo að tengjast öðru fólki og á endanum nái að tengjast tilgangi sínum. Þessi tenging er okkur öllum mikilvæg og er líka leiðarvísir í bataferlinu,“ segir Vigfús. „Áföll rjúfa tengsl og maður vill að fólk nái tengslum aftur. Bati er langt ferli sem er fram og aftur. Í nútímanum getum við verið óþolinmóð. Við höldum að allt eigi alltaf að vera í lagi og okkur eigi að líða vel. En það er ekki þannig, við getum lifað með áföllum og erfiðum hlutum. Lífið er gott þótt við finnum til sársauka.“

Vigfús minnir aftur á að við verðum að horfast í augu við illskuna. „Mannskepnan getur gert alveg svakalega hluti. Hún getur bæði geymt grimmd og kærleika. Við eigum ekki að sætta okkur við tilvist illskunnar. Með því að viðurkenna grimmd, óréttlæti, illsku þá berjumst við á móti henni. Við þurfum að hafa hugrekki til að nefna illskuna á nafn. Þá erum við líka betur í stakk búin til að ganga fram og ávarpa kærleikann af hugrekki. Kærleiki krefst líka hugrekkis rétt eins og baráttan við illskuna.“

Hann skilur viðleitni fólks til þess að lýsa málsatvikum í smáatriðum.

„Þetta er mjög vel þekkt þegar kemur að dauðanum og stýrist af hræðslu okkar við hann. Okkur finnst við ráða betur við að skýra hluti með því að lýsa þeim í smáatriðum. En stundum gleymum við okkur, gleymum að á bak við lýsingar á líkamspörtum eru sögur, tilfinningar, ástvinir. Þetta verður óraunverulegt fyrir fólki. Það dettur úr tengslum. Það stendur þó upp úr öllu saman velvilji allra og samúð gagnvart ástvinum,“ segir Vigfús Bjarni og bendir á að það sé mjög mikilvægt foreldrum hennar, og í raun ástvinum allra sem verða fyrir erfiðum missi, að halda minningu þeirra sem látast á lofti. Að persónuleiki hennar og atgervi verði framar í hugskoti fólks en illdæðið sem var framið á henni.



"Ég fékk símhringingu frá lögreglustjóranum um kvöld í vetur. Þá var hafin leit að Birnu heitinni og ég beðinn um að hjálpa fjölskyldu hennar í þessum erfiðu aðstæðum. Ég hef fylgt fjölskyldunni síðan þá,“ segir Vigfús.Visir/Vilhelm
Þurfti að láta vita 

Eftir ráðum Vigfúsar segir móðir Birnu, Sigurlaug Hreinsdóttir, blaðamanni frá sjónarmiðum sínum og deilir minningu Birnu.

Frá upphafi ákvað Sigurlaug, sem alla jafna er kölluð Silla, að ganga í gegnum erfiðleikana með styrkleika Birnu í huga. „Birna var svo hugrökk og sagði alltaf það sem henni bjó í brjósti á yfirvegaðan hátt. Hún bjó yfir þessum einstaka eiginleika sem ég ákvað að halda í heiðri allan þennan tíma. Fegurðin í minningu hennar hjálpar mér. Ástin til hennar stýrði mér og kom mér í gegnum erfiðustu vikur lífs míns,“ segir Silla.

„Þess vegna fannst mér svo erfitt að verða reið yfir fréttum af málsmeðferðinni. Í fyrsta sinn fannst mér ég glata tengslum við þessa fegurð og minningu Birnu. Það er flókið og erfitt því fjölmiðlar hafa staðið sig svo vel. Þetta var bara of mikið og ég ákvað að vera ekki raddlaus. Ég ákvað frekar að láta vita af því hvernig mér leið og fékk Vigfús til aðstoðar. Annars hefði ég bara endað á geðdeild, ég þurfti að bjarga sálinni. Fyrir öðrum verða atburðirnir fjarlægari en fyrir okkur eru þeir alltaf persónulegir. Ég vil ekki að eiginleikar hennar gleymist. Mér er það mjög mikilvægt að fólk minnist hennar. Hvernig hún var þegar hún var á lífi en ekki með hvaða hætti hún dó,“ segir hún.

Æskuvinkona Birnu, María Bjarnadóttir, er stödd heima hjá Sillu á meðan blaðamaður sækir hana heim. Vinir og kunningjar Birnu hafa verið gestir á heimili Sillu síðustu mánuði. Nokkuð sem Sillu þykir vænt um. Hún skartar nú sama húðflúri og dóttir hennar bar á handlegg. „Hann flúraði líka Birnu og sagði að ég væri líklega elsti viðskiptavinurinn,“ segir hún frá.

María tekur undir með Sillu um minningu Birnu. „Það er mikilvægt að fjarlægjast ekki líf Birnu þótt hún sé látin. Síðustu dagar hafa verið erfiðir, mikið af upplýsingum og ofgnótt frétta. Í öllu þessu er minning Birnu fjarlæg. Þetta er of mikið. Að sama skapi þá er mér mikilvægt að fá lokun. Þetta er bara mjög erfitt og flókið,“ segir María.

„Mér finnst þetta svo lýsandi sem systir mín segir hér um hana Birnu,“ segir hún Silla og les orðsendingu í tölvunni frá systur sinni um Birnu: „„Hún var yfirveguð, róleg og mjög sjálfstæð. Hún vissi hvað hún vildi. Þegar hún var lítil þá var hún óhrædd og ófeimin. Minnti mig á þig á sama aldri.“ Þetta er alveg rétt sem systir mín segir,“ segir Silla. „Hún lét það vel í ljós ef henni líkaði vel við einhvern. Hún lét aldrei hafna sér. Manstu hvernig þið kynntust til dæmis?“ spyr Silla Maríu.

María brosir. „Vilt þú segja frá,“ biður hún Sillu.

„Já, ég skal byrja,“ segir Silla. „Þær bjuggu í Safamýrinni og þekktust frá fjögurra ára aldri. Þær urðu strax nánar vinkonur, eins og systur nánast. Ef það slettist upp á vinskapinn þá var það allt í lagi.“

María tekur við. „Ég var langrækin þegar ég var lítil,“ segir hún. „Ef svo mætti kalla. Ef þú gerðir eitthvað sem mér líkaði ekki, þá var ég ekkert að fara að fyrirgefa það. Birna tók það hins vegar ekki í mál. Hún var búin að einsetja sér að verða vinkona mín. Við bjuggum á móti hvor annarri. Stundum fór ég út að labba með hunda nágrannanna. Þá kallaði hún á eftir mér, elti mig. Kallaði á eftir mér, María, María, komdu og talaðu við mig! Hún var bara búin að velja mig. Og þannig var hún. Hún valdi vel sína vini og var góður vinur.“

„Þegar vinkonur þroskast saman þá verður vináttan svo sterk og náin. Það slettist ekki oft upp á vinskapinn,“ segir Silla.

„Þegar við vorum orðnar eldri þá rifumst við eiginlega ekki. Við bara ræddum málin og leystum þau. Ef við rifumst þá var það í góðu, svipað og er kannski hjá systkinum,“ segir María.

„Vilji Birnu var svo sterkur. Ég vil að fólk minnist þess,“ segir María. Ég tek það svolítið með mér. Ég vil líka vera óhrædd við að segja meiningu mína,“ segir hún og Silla tekur undir: „Hún sagði mjög skýrt hvað hún vildi. Líka hvað hún vildi ekki. Ef við vorum ekki sammála um hvað hún ætti að velja í lífinu þá tæklaði hún það mjög vel. Ég gat alveg sagt það sem mér fannst. Hún leyfði mér alveg að segja það en það hafði ekki beinlínis áhrif á hennar ákvörðun.

Hún hafði áhuga á mörgu. Hana langaði eitt sinn að fara og læra leikhúsförðun. Hún var flink í því,“ segir Silla en í stofunni er snyrtiborðið hennar Birnu. „Hún var að stefna á það, hún var samt ekki alveg komin með beina línu hvað hana langaði að gera. Hún vildi fá lengri tíma til að hugsa það. Hún var alltaf að koma á óvart.“

Þær Silla og María enda á léttu nótunum um Birnu og brosa að minningunni um hana og köttinn hennar, Dreka. „Úff, Birna var mikill dýravinur og vildi eignast kött. Hún gafst aldrei upp þegar hún vildi eitthvað og fékk köttinn Dreka fyrir þremur árum. Þessi köttur var algjör óhemja og við vorum öll skíthrædd við hann,“ segir Silla og hlær. „Já, allir voru hræddir við Dreka nema Birna og bróðir hennar. Hann réðst bara á mann upp úr þurru og var hrikalegur. En Birna sagði þá bara: Æi María, hættu að stríða kettinum! Það var sko aldrei hann. Heldur við að ögra kettinum. Dreki var bara eins og barnið hennar og mátti allt.“

„Hennar sterkustu eiginleikar voru líka hvað hún var fyndin,“ segir María. „Húmorinn hennar var svo sérstakur og skemmtilegur, það var það sem mér fannst einkenna hana.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×